Viðskipti innlent

Japanirnir vildu kaupa Glitni í vetur, enn áhugasamir

Þeir japönsku fjárfestar sem höfðu samband við íslensk stjórnvöld eftir hrunið í vetur vildu m.a. festa kaup á Glitni auk orkufyrirtækja. Aftur er búið að koma sambandi á við Japanina og þeir munu enn áhugasamir um að fjárfesta í íslensku atvinnulífi.

Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu segir að haldinn hafi verið ágætur fundur með fulltrúum fjárfestanna í ráðuneytinu í gær. „Japanarnir eru enn áhugasamir um að koma með fjármagn til landsins og verið er að skoða þær leiðir sem þeim standa til boða," segir Guðmundur.

Eins og fram hefur komið í fréttum ætluðu hinir japönsku fjárfestar að koma inn í íslenskt efnahagslíf með einn milljarð dollara eða um 124 milljarða kr. á núverandi gengi. Árni Mathiesen fyrrum fjármálaráðherra átti fund með þeim í lok desember og annan í janúar en síðan dó málið í kjölfar þess að síðasta ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum.

Ragnar Önundarson þáverandi aðstoðarmaður fjárfestanna vakti athygli á máli þeirra í vikunni og sagði að ekkert hefði verið haft samband við þá frá því um áramót. Steingrímur J. Sigfússon sagði þá í samtali við RUV að málið hefði lent milli skips og bryggju við stjórnarskiptin.

Fjármálaráðuneytið hefur nú tekið málið upp að nýju við fjárfestana og er það aftur komið í eðlilegan farveg að sögn Guðmundar Árnasonar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×