Viðskipti innlent

Takmarkað hve ríkið getur hjálpað Sparisjóðabankanum

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að það sé takmarkað hve mikið ríkið geti lagt af mörkunum til aðstoðar Sparisjóðabankanum. Eins og kunnugt er af fréttum reynir bankinn nú í samvinnu við kröfuhafa að finna flöt á áframhaldandi rekstri bankans.

„Það eru skýr takmörk sett fyrir því hve aðkoma okkar að fjárhagsvanda Sparisjóðsbankans getur verið ," segir Steingrímur í samtali við Fréttastofu. „Það er búið að ákveða þá upphæð sem sett verður í endurreisn bankakerfisins í heild og hendur okkar eru bundnar við þá upphæð."

Eins og fram hefur komið í fréttum er áformað að ríkið leggi bönkunum til fjárhæð á bilinu 375 til 400 milljarða kr. og er sú upphæð mikið til eyrnamerkt stóru bönkunum þremur, það er Íslandsbanka, Nýja-Kaupþingi og Landsbankanum.

Steingrímur segir að áfram sé unnið að málefnum Sparisjóðabankans og leitað að lausnum í samvinnu við erlenda kröfuhafa bankans. Að þessari vinnu komi Seðlabankinn auk stjórnvalda og að Fjármálaeftirlitið fylgist með því sem gerist.

Eins og kunnugt er af fréttum glímir Sparisjóðabankinn við vanda upp á um 150 milljarða kr. Þar af eru 70-75 milljarðar kröfur frá ríkissjóði eftir að ríkið yfirtók skuldabréfaeign Seðlabankans í gömlu bönkunum þremur fyrr í vetur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×