Erlent

Lögga á daginn, vændiskona á kvöldin - dæmd í 15 mánaða fangelsi

Lögreglukonan Victoria Thorne, eða Kelly eins og hún kallaði sig þegar hún starfaði sem vændiskona, var dæmd í 15 mánaða fangelsi í Bretlandi í gær fyrir alvarleg afglöp í starfi.

Victoria komst í heimsfréttirnar á síðasta ári þegar upp komst að hún var lögreglukona á daginn en vændiskona á kvöldin. Þá kallaði hún sig Kelly og tók 100 pund fyrir klukkustundina. Samkvæmt The Daily Telegraph þjónustaði hún allt upp í 20 menn á kvöldi. Ástæðan fyrir hinu tvöfalda lífi var einföld; hún sagðist ekki geta lifað á lúsarlaunum lögreglumanna.

Dómurinn þykir ekki þungur í ljósi þess að í gegnum starf sitt, sem lögreglukona það er að segja, komst hún í viðkvæm og leynileg skjöl um samkeppnisaðila í vændi sem hún lét par fá sem rak fylgdarþjónustuna sem hún starfaði hjá.

Kelly, eða Victoria, neitaði ávallt að sitja fáklædd fyrir í lögreglubúningi á heimasíðu fylgdarþjónustunnar.

Dómarinn í málinu sagði við Victoriu að það væri synd að sjá á eftir konu sem átti fyrir sér glæsta framtíð í lögreglunni. Hann sagði hana ekki aðeins hafa brugðist samstarfsfólki sínu, heldur líka fjölskyldu og vinum sem höfðu enga hugmynd um tvöfalt líf Victoriu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×