Viðskipti innlent

Nauðungarsölur fasteigna í borginni fleiri en allt árið í fyrra

Í lok september höfðu 166 fasteignir verið seldar nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík á árinu 2009. Til samanburðar voru þessar sölu 161 talsins allt árið í fyrra.

Þetta kemur fram á vefsíðu sýslumannsins í Reykjavík. Þar segir að nauðungarsölurnar hafi verið flestar mánuðina febrúar eða 29 talsins, mars 37 talsins og september 38 talsins. Fæstar voru þær í ágúst eða aðeins ein.

Skráðar nauðungarsölubeiðnir vegna fasteigna voru í lok ágúst 1.655; janúar 216, febrúar 156, mars 187, apríl 134, maí 207, júní 225, júlí 112, ágúst 140, september 278. Í allt voru 2.277 nauðungarsölubeiðnir skráðar árið 2008.

Í lok september 2009 höfðu 305 bifreiðar verið seldar nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík.

770 nauðungarsölubeiðnir vegna bifreiða voru skráðar hjá embættinu í janúar til september 2009.

Alls var 491 bifreið seld á uppboði hjá sýslumanninum í Reykjavík árið 2008. Skráðar nauðungarsölubeiðnir vegna bifreiða voru 2.019 allt árið.

Í lok september 2009 höfðu 13.900 fjárnámsbeiðnir verið skráðar hjá embættinu á árinu; janúar 1.180, febrúar 2.720, mars 1.590, apríl 1.580, maí 1.722, júní 1.734, júlí 1.352, ágúst 859 og í september voru þær1.154 talsins. 30 útburðarbeiðnir höfðu borist embættinu í lok september.

Árið 2008 voru skráðar fjárnámsbeiðnir alls 18.541. Skráðar útburðarbeiðnir árið 2008 voru 55 talsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×