Erlent

Var rukkaður um 88,9 milljarða

Skoðar Facebook Nýfallinn dómur í Bandaríkjunum sýnir að dýrt spaug getur verið að senda kæfupóst (e. spam) á Facebook. Fréttablaðið/AP
Skoðar Facebook Nýfallinn dómur í Bandaríkjunum sýnir að dýrt spaug getur verið að senda kæfupóst (e. spam) á Facebook. Fréttablaðið/AP

Bandarískur maður hefur verið dæmdur til að greiða 711 milljón dollara sekt fyrir tilraun til að svíkja notendur Facebook-samskiptavefjarins.

Upphæðin jafngildir 88,9 milljörðum króna. Maðurinn, sem heitir Sanford Wallace, er í forsvari fyrir fyrirtækið Cyber Promptions sem sendir út ruslpóst (sem stundum er kallaður kæfa, eða spam á ensku). Wallace, í félagi við annan mann, reyndi að fá fólk til gefa aðgang að bankareikningum sínum.

Dómurinn féll í Kaliforníu í Bandaríkjunum, en dómarinn sagðist vilja fæla aðra frá því að velja sér kæfusendingar að atvinnu.

Í umfjöllun Berlingske Tidende um dóminn er hins vegar haft eftir sérfræðingi í upplýsingatækni að vafi kunni að leika á fælingarmætti dómsins.

„Ég óttast að helsta afleiðing sektarinnar verði að hvetja kæfusendara til að vanda betur til verka og hylja slóð sína þannig að yfirvöld eigi erfiðara með að hafa hendur í hári þeirra. Um leið verður snúnara að stöðva og sjá við ruslpóstssendingunum,“ segir Dan Olds, sérfræðingur hjá Gabriel Consulting, í viðtali við bandaríska tölvublaðið Computerworld.

Fram kemur í Berlingske að Facebook eigi ekki von á því að fá peningana greidda, en í maí í fyrra var Wallace þessi dæmdur til að borga MySpace rúma 29 milljarða króna. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×