Viðskipti innlent

Sparisjóður Mýrarsýslu tapaði 21 milljarði í fyrra

Tap varð af rekstri Sparisjóðs Mýrarsýslu á árinu 2008 að fjárhæð 21.2 milljarðar kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé í árslok var neikvætt um 15.1 milljarða kr.

Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjör sparisjóðsins fyrir árið 2008. Eiginfjárhlutfall sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki var neikvætt um 32,1% hjá samstæðunni. Samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8,0% og því uppfyllir sparisjóðurinn ekki skilyrði laga.

Viðræður við lánardrottna sparisjóðsins hafa staðið yfir frá því á miðju ári 2008 í því skyni að framkvæma fjárhagslega endurskipulagningu á sjóðnum og tryggja að hann uppfylli skilyrði laga.

Þann 3. apríl 2009 var gerður samningur um sölu allra eigna Sparisjóðs Mýrasýslu til Nýja Kaupþings banka hf. á grundvelli samkomulags við helstu lánardrottna.

Þann 27. apríl sl. voru útibú sparisjóðsins og Nýja Kaupþings banka í Borgarnesi sameinuð og starfsmenn sparisjóðsins færðust yfir til Nýja Kaupþings banka. Í kjölfarið sótti sparisjóðurinn um greiðslustöðvun og gert er ráð fyrir að ljúka samningum við lánadrottna með nauðasamningum í því skyni að tryggja jafnræði kröfuhafa.

Stjórn sparisjóðsins leggur til að ekki verði greiddur arður til stofnfjáreigenda á árinu 2009 vegna ársins 2008. Um jöfnun taps og aðrar breytingar á eiginfjárreikningum er vísað til ársreikningsins.

Í árslok var stofnfé sparisjóðsins 505 millj. kr. Stofnfé sparisjóðsins er allt í eigu Borgarbyggðar eins og í ársbyrjun en þann 4. apríl 2009 var allt stofnfé sparisjóðsins selt til Nýja Kaupþings banka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×