Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands hefur lækkað töluvert í mars

Skuldatryggingaálag íslenska ríkisins hefur verið að lækka allnokkuð núna í marsmánuði. Álagið til fimm ára sem stóð í um 1.080 punktum í byrjun mánaðarins er komið niður í 892 punkta nú.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að lækkunin merki að fjárfestar telja minni líkur á því að ríkið lendir í greiðslufalli. Lækkunin er í takti við alþjóðlega þróun en skuldatryggingaálag ríkja hefur almennt verið að lækka í mánuðinum. Er það talið merki um minni áhættufælni og að bankakreppan hafi hugsanlega snert botninn fyrr í mánuðinum.

Þess má geta að skuldatryggingaálag íslenska ríkisins fór úr tæplega 400 punktum í tæplega 1.500 punkta við hrun bankanna í byrjun október í fyrra.

Þrátt fyrir lækkun síðustu vikna er skuldatryggingaálag íslenska ríkisins enn hátt í samanburði við önnur ríki. Ef það er borið saman við skuldatryggingaálag annarra þróaðra ríkja þá er það Írland sem kemst næst hinu íslenska en álag þess stendur nú í 220 punktum. Þar á eftir kemur Grikkland (170), Austurríki (150), Ítalía (144) og Bretland (110).

Samkvæmt þessu er ljóst að fjárfestar telja mun meiri líkur á því að íslenska ríkið lendi í greiðslufalli en önnur þróuð ríki. Íslenska ríkið finnur sína líka mun frekar á meðal ríkja Austur- Evrópu og þá þróunarríkja í þessu sambandi en skuldatryggingaálag Úkraínu er í 3.797, Kasakstan í 1.104 og Lettlands í 917. Skuldatryggingaálag þessara ríkja hefur einnig verið að lækka allnokkuð undanfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×