Lífið

Brjálæðið í kringum Brüno

Of langt gengið?
Of langt gengið?

Grín og gaman fékk algjörlega nýja ásjónu með kvikmyndinni Borat þar sem Sacha Baron Cohen brá sér í líki sjónvarpsmannsins frá Kasakstan. Sacha Baron er mættur aftur en nú sem austurríska tískugúrúið Brüno. Myndin verður frumsýnd í kvikmyndahúsum um helgina.

Söguþráðurinn í Brüno er ósköp einfaldur. Tískugúrúið heldur því fram, fullum fetum, að hann sé vinsælasti sjónvarpsmaðurinn í hinum þýskumælandi heimi, það er að segja fyrir utan Þýskaland. Hann á sér stóra drauma, meðal annars að verða frægasti Austurríkismaðurinn síðan Adolf Hitler var og hét og í þeim erindagjörðum heldur hann í mikinn leiðangur til að sigra heiminn.

Sacha Baron byrjaði að þróa þennan húmor í kringum The Ali G Show þar sem bæði Borat og Brüno birtust í fyrsta skipti. Þættirnir voru sýndir á RÚV og virðast hafa haft töluverð áhrif sem birtist hvað skýrast á Skjá einum þar sem persónur á borð við Frímann Gunnarsson, Johnny National og Silvíu Nótt fóru á kostum.

Þegar sjónvarpsformið hafði gengið sér til húðar hjá Sacha snéri hann sér að hvíta tjaldinu. Fyrstur á dagskránni var höfuðpaurinn Ali G. Myndin náði ekki tilætluðum hæðum þrátt fyrir miklar vinsældir sjónvarpsþáttarins en hún reyndist ágætis æfing fyrir kvikmyndina Borat. Sacha sýndi þar að hann hafði náð nokkuð góðum tökum á formi sem kallast mocku-mentary.

Honum fórst verkefnið svo vel úr hendi að viðmælendur hans grunaði aldrei að Borat væri grínari frá Bretlandi heldur trúðu þeir því, heitt og innilega, að hann væri fáfróður útlendingur frá vanþróuðu landi.

Viðtökurnar við Brüno hafa verið nokkuð góðar þótt hugmyndin sé sú sama og bak við Ali G og Borat; að koma fólki inn í aðstæður sem það hefði aldrei komið sér út í af fúsum og frjálsum vilja og kalla fram viðbrögð sem það myndi aldrei sýna á venjulegum degi. Sacha virðist hins vegar hafa náð fullkomnu valdi á þessari list þótt sú fullkomnun krefjist þess að hann sé í hlutverkinu allan sólarhringinn, nánast samfleytt í þrjá mánuði, og hafi á stundum stofnað lífi sínu í mikla hættu.

Það er þó ekki eintómur hallelúja-kór í kringum Sacha Baron. Sumir halda því fram að hann hafi gengið einum of langt í Brüno. Samtök samkynhneigðra í Bandaríkjunum hafa þannig lýst því yfir að kvikmyndin geti sett strik í áralanga baráttu homma. Hún stuðli að því að hommar verði aftur að einhverjum steríó-týpum í augum almennings. Sacha Baron hefur ekki getað svarað fyrir þær ásakanir enda er hann enn fastur í hlutverki Brüno og verður það eitthvað fram eftir ári. Hann hefur reyndar haft það til siðs að tjá sig ekki um kvikmyndir sínar þegar þær hafa verið frumsýndar enda hafi hann lítið með myndirnar að gera; þær séu verk Ali G, Borats eða Brüno.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.