Viðskipti innlent

VR tapaði 415 milljónum á síðasta ári

Verkalýðsfélagið VR tapaði 415 milljónum kr. á hefðbundinni starfsemi sinni á síðasta ári. Þetta kemur fram í rekstrareikningi félagsins sem birtur er í árskýrslu þess.

Til samanburðar má nefna að árið 2007 skilaði félagið hagnaði upp á rúmlega 600 milljónir kr. þannig að þarna er um milljarðs kr. viðsnúning að ræða milli áranna.

Stærsti einstaki tapliðurinn í reikningnum eru fjármagnsgjöld upp á rúmlega 595 milljónir kr. Þau eru sundurliðuð þannig að gengistapið á verðbréfasafni nemur um 425 milljónir kr. og gengistap af hlutabréfaeign er 170 milljónir kr.

Af einstökum sjóðum VR kemur þetta þannig út að sjúkrasjóður félagsins tapar mestu eða 277 milljónum kr. Félagssjóður skilar tapi upp á 183 milljónir kr. en orlofssjóður og varasjóður skila hagnaði upp á samtals 45 milljónir kr.

Ekki hefur náðst tal af Gunnari Páli Pálssyni fyrrum formanni VR í morgun.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×