Viðskipti innlent

Álbirgðir heimsins í sögulegu hámarki

Alcoa Fjarðaáls Á þessu ári er útlit fyrir fimm til tíu prósenta samdrátt eftirspurnar eftir áli í heiminum samkvæmt nýrri umfjöllun IFS Greiningar. Mynd/Hreinn magnússon
Alcoa Fjarðaáls Á þessu ári er útlit fyrir fimm til tíu prósenta samdrátt eftirspurnar eftir áli í heiminum samkvæmt nýrri umfjöllun IFS Greiningar. Mynd/Hreinn magnússon

Dræm eftirspurn eftir áli hefur orðið til þess að birgðir hlaðast upp í heiminum. Álfyrirtæki bregðast við með því að draga úr framleiðslu. Flest álver eru rekin með tapi.

Álbirgðir aukast enn í heiminum, að því er fram kemur í nýrri greiningu IFG Greiningar sem út kom í gær.

„Birgðir hjá London Metal Exchange hafa aukist um nærri 50 prósent bara á þessu ári. Það skýrist af mjög dræmri eftirspurn,“ segir í skýrslu greiningarfyrirtækisins. Ekki er útlit fyrir að eftirspurnin aukist fyrr en í fyrsta lagi undir lok þessa árs, segir þar jafnframt. „Til að birgðasöfnun minnki er því ljóst að framleiðendur þurfa enn að draga úr framleiðslu en talið er að álframleiðendur hafi dregið framleiðslu saman um 15 prósent.“

Áætlað er að í heiminum séu til birgðir af áli sem nægi til tveggja mánaða framleiðslu. Líkur eru taldar á þetta sé varlegt mat því birgðir endist lengur þegar eftirspurn er jafnlítil og nú. „Erlendir greinendur hafa nefnt að allt að 100 daga birgðir séu nú til, en við teljum að sú áætlun sé í hærri kantinum,“ segir í greiningunni.

Þá er bent á að kínversk stjórnvöld hafi undanfarið keypt ál frá innlendum framleiðendum langt yfir markaðsverði og halda þar með framleiðslu uppi, en miklar birgðir muni hins vegar halda aftur af mögulegum verðhækkunum á næstu mánuðum.

Vitnað er til talna frá ráðgjafafyrirtækinu CRU um að meðalframleiðslukostnaður áls sé um 1.450 Bandaríkjadalir hvert tonn og því ljóst að stór hluti álvera sé rekinn með tapi. „Reyndar hafa erlendir greinendur talað um að allt að 75 prósent álvera í heiminum séu rekin með tapi miðað við núverandi verð.“

IFS Greining segir álverð nú undir verðinu um aldamótin, á meðan að verð á hráolíu hafi tvöfaldast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×