Viðskipti innlent

Brýnt fyrir þjóðarbúskapinn að lækka stýrivexti

Brýnt er fyrir þjóðarbúskapinn að stýrivextir verði lækkaðir verulega og peningastefnunefnd hefur þegar stigið fyrstu skrefin í þá átt með stýrivaxtaákvörðunum sínum 19. mars og 8. apríl. Engu að síður eru háir stýrivextir ennþá álitnir nauðsynlegir - þar til gerðar hafa verið ráðstafanir til að tryggja traustari efnahagsgrundvöll.

Þetta sagði Svein Harald Öygard bankastjóri Seðlabankans í ræðu sinni á aðalfundi bankans nú síðdegis.

Fram kom í máli hans að svo virðist sem dregið hafi úr verðbólguþrýstingi og verðbólga fari hratt minnkandi. Seðlabankinn væntir þess að verðbólga nálgist 2,5% verðbólgumarkmiðið snemma árs 2010.

Þá fjallaði Svein Harald um gjaldeyrishöftin og sagði að þar sem gjaldeyrishöft hindri óheft útstreymi fjármagns eru þau óheppilegur en ómissandi liður í aðgerðum sem miða að því að vernda efnahagsreikninga og stuðla að sjálfbærum efnahagsbata. Þau skapa einnig aukið svigrúm til að lækka stýrivexti.

Svein sagði að miðað við núgildandi áætlun ætti að vera hægt að ná fram fimm af meginforsendunum fyrir verulegri lækkun stýrivaxta á næstu mánuðum:

1. Áætlun um aðlögun ríkisfjármála næstu misserin verður hrint í framkvæmd og þarf að skapa traust á því að Íslendingar séu vel í stakk búnir til að takast á við skuldastöðu hins opinbera. Áætlunin verður í samræmi við góðan árangur Íslendinga á undanförnum árum, en þeir voru með næstlægstu opinberar skuldir í Evrópu fyrir fjármálakreppuna...

2. Ljúka þarf endurskipulagningu og endurfjármögnun bankakerfisins. Í öllum þróuðum ríkjum er það álitið skipta sköpum að reka skilvirkt bankakerfi. Rannsóknir benda til þess að starfhæft fjármálakerfi sé lykilforsenda langtíma hagvaxtar. Því ber að halda áfram samningaferlum í fjármálageiranum og endurskipulagningu og endurfjármögnun bankanna samkvæmt áætlun. Liður í því er að taka á áhættu er varðar verðtryggð lán og lán í erlendum gjaldeyri í nýju bönkunum. Góðu fréttirnar eru þær að mikilvægum undirbúningsaðgerðum er nú um það bil að ljúka.

3. Með minnkandi innlendri eftirspurn verða tiltækir fjármunir til að greiða niður uppsafnaðar skuldir þjóðarinnar og leggja drög að aukinni atvinnu í framtíðinni. Þegar er komið í ljós að útflutningur á vörum og þjónustu er orðinn meiri en innflutningur. Landið nýtur góðs af fiskiðnaði í fremstu röð í heiminum, ágætum forsendum ferðamannaiðnaðar, endurnýtanlegri orku og fyrirtækjum sem byggja á henni, og einkar fjölbreyttu efnahagslífi...

4. Þótt núverandi aðstæður innan lands sem utan gefi ekki ennþá færi á að aflétta gjaldeyrishöftum án þess að stofna stöðugleika í hættu metur Seðlabanki Íslands árangur þeirra reglulega og leitar leiða til að aflétta þeim í áföngum um leið og aðstæður leyfa. Seðlabankinn metur einnig sérstök úrræði sem gætu gert óþolinmóðustu fjárfestunum sem hafa verið bundnir af gjaldeyrishöftum kleift að skipta skuldabréfum sínum í íslenskum krónum með þeim hætti að ekki komi niður á gjaldeyrisforða bankans.

. Samningaviðræðum um tvíhliða lán, öðrum samningaferlum og endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ætti bráðlega að ljúka. Þegar í mars 2008 reyndi Seðlabanki Íslands að gera gjaldmiðlaskiptasamninga við aðra seðlabanka. Viðræður við seðlabanka þriggja Norðurlandaríkja leiddu til gjaldmiðlaskiptasamninga sem tilkynnt var um miðjan maí 2008. Þessir samningar eru nú í gildi og ég vil þakka norrænu seðlabönkunum fyrir samstarf þeirra."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×