Viðskipti innlent

Máli FME og Össur hf. lokið með sátt

Þann 15. janúar 2009 gerðu Fjármálaeftirlitið (FME) og Össur hf. með sér sátt vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti.

Í frétt á vef FME segir að með sáttinni gekkst Össur hf. við því að hafa brotið gegn lögunum með því að tilkynna ekki samdægurs um viðskipti fruminnherja á 29.000 hlutum í félaginu sem áttu sér stað þann 13. nóvember 2008. Tilkynning um viðskiptin barst Fjármálaeftirlitinu þann 14. nóvember 2008 kl. 00:56.

Í lögunum er kveðið á um skyldu útgefanda til að tilkynna samdægurs um viðskipti fruminnherja, eða aðila fjárhagslega tengdum honum, til Fjármálaeftirlitsins (tilkynningarskylda).

Þar sem Fjármálaeftirlitið taldi að ekki væri um meiriháttar brot að ræða var félaginu boðið að ljúka málinu með sátt. Með hliðsjón af málsatvikum og sérstaklega m.t.t. þess um hve stuttan drátt var að ræða var það mat Fjármálaeftirlitsins að fjárhæð sáttarinnar væri hæfilega ákveðin kr. 500.000.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×