Viðskipti innlent

Kaupfélag Skagfirðinga skilar ágætu uppgjöri

Aðalfundur Kaupfélags Skagfirðinga (KS) verður haldin á morgun en í fréttatilkynningu frá félaginu kemur fram að heildartekjur félagsins á árinu 2008 voru tæplega 19 milljarðar króna. Þá var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði rúmlega 3,1 milljarður króna.

Að teknu tilliti til gengisbreytinga og skatt nam tap ársins 2,9 milljörðum kr.

Fjallað er um málið á vefsíðunni feykir.is. Þar segir að nettóskuldir allra fyrirtækjanna í KS-samstæðunni voru samanlagt rúmlega 3 milljarðar króna í lok árs 2008 og höfðu minnkað frá fyrra ári.

Bókfært eigið fé félagsins í árslok 2008 var 10,5 milljarðar króna. Eiginfjárstaða félagsins er mjög traust og lausafjárstaðan sömuleiðis.

Starfsmenn Kaupfélags Skagfirðinga og dótturfélaga eru um 600 talsins. Stærstu dótturfélögin eru FISK Seafood og Vörumiðlun sem KS á bæði að fullu, Fóðurblandan sem KS á 70% hlut í og Sláturhús KVH ehf. á Hvammstanga sem KS á helmingshlut í.

Kaupfélagið verður 120 ára á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl, og býður þá öllum héraðsbúum og fleiri gestum til veislu í nýju 3.300 fermetra verkstæðis-húsnæði félagsins á Eyrinni á Sauðárkróki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×