Viðskipti innlent

Flest gjaldþrot eru í byggingargeiranum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í nýrri samantekt Hagstofunnar kemur fram að á fyrstu tveimur mánuðum ársins hafi 54 prósent fleiri fyrirtæki orðið gjaldþrota en á sama tíma í fyrra.
Í nýrri samantekt Hagstofunnar kemur fram að á fyrstu tveimur mánuðum ársins hafi 54 prósent fleiri fyrirtæki orðið gjaldþrota en á sama tíma í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Nýjar tölur Hagstofu Íslands sýna yfir 50 prósenta fjölgun gjaldþrota milli ára. Fyrstu tvo mánuði ársins urðu 149 fyrirtæki gjaldþrota, samanborið við 97 fyrirtæki í fyrra. Greining Íslandsbanka segir að gera megi ráð fyrir að gjaldþrotum haldi áfram að fjölga á þessu ári. Þrotahrina sé fram undan.

Nær þriðjungur gjaldþrota febrúarmánaðar var hjá fyrirtækjum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Samantekt Hagstofu Íslands sýnir að gjaldþrot í febrúar voru 36 prósentum fleiri en í sama mánuði ári fyrr. Alls voru 76 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta í febrúar, en það er sex fyrirtækjum meira en í janúar. Í febrúar í fyrra voru 56 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta.

„Gera má ráð fyrir að gjaldþrotum fyrirtækja haldi áfram að fjölga á þessu ári samhliða því sem mikill samdráttur er fram undan í hagkerfinu og eftirspurn og fjárfestingar dragast saman. Spár sem birtar hafa verið um gjaldþrot fyrirtækja gera ráð fyrir að þrotahrina sé fram undan á árinu," segir í samantekt Greiningar Íslandsbanka um málið.

Af þeim fyrirtækjum sem tekin voru til gjaldþrotaskipta voru 20 í byggingargeiranum, en það eru 30 prósent heildarfjöldans. Fyrir ári urðu níu fyrirtæki í sama geira gjaldþrota. „Fyrstu tvo mánuði ársins hafa 38 fyrirtæki í byggingariðnaði verið tekin til gjaldþrotaskipta sem er fimmtungur allra gjaldþrota á árinu", bendir Greining Íslandsbanka á og bætir við að fyrstu tvo mánuði síðasta árs hafi 17 fyrirtæki í byggingariðnaði verið tekin til gjaldþrotaskipta. „Fjármálakreppan hefur komið afar illa niður á byggingar­iðnaði enda hefur fjárfesting dregist mikið saman, meðal annars vegna þess að aðgengi að lánsfé hefur versnað."

Fyrir utan byggingariðnaðinn urðu í febrúar 15 gjaldþrot í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum farartækjum og 12 í rekstri gisti- og veitingastaða. „Fyrstu tvo mánuði ársins 2009 er fjöldi gjaldþrota 149 en fyrstu tvo mánuði ársins 2008 voru gjaldþrotin 97 sem jafngildir tæplega 54 prósenta aukningu milli ára," segir í samantekt Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×