Erlent

Verður tekinn af lífi í dag

John Allen Muhammad stóð svipbrigðalaus þegar dómari las úrskurð sinn um dauðadóm í mars árið 2004. Nordicphotos/AFP
John Allen Muhammad stóð svipbrigðalaus þegar dómari las úrskurð sinn um dauðadóm í mars árið 2004. Nordicphotos/AFP
Stjórnvöld í Virginíu undirbúa nú aftöku Johns Allens Muhammad, leyniskyttunnar sem skaut Bandaríkjamönnum heldur betur skelk í bringu fyrir sjö árum þegar hann fór um nágranna­byggðir Washington-borgar og myrti fólk úr launsátri dag eftir dag svo vikum skipti.

„Ég held að allir hafi verið hræddir um öryggi sitt,“ segir Bernice Easter, 82 ára fyrrverandi kennslukona sem býr í bænum Wheaton í Maryland, þar sem Muhammad lét fyrst til skarar skríða. „Ég þorði ekki að fara út í garð.“

Muhammad var dæmdur fyrir að hafa myrt tíu manns í október árið 2002, ásamt félaga sínum Lee Boyd Malvo, sem var þá aðeins sautján ára. Þeir óku um á bláum Chevrolet Caprice, sem Muhammad hafði útbúið þannig að hann gat skriðið aftur í skottið og skotið út um gat þaðan.

Morðin voru framin á þriggja vikna tímabili í október árið 2002. Svo virðist sem Muhammad hafi ætlað sér að ljúka morðunum með því að myrða fyrrverandi eiginkonu sína, Mildred Muhammad, í þeirri von að geta síðan fengið forræði þriggja barna þeirra.

Í september síðastliðnum ákvað dómari í Virginíu að aftakan færi fram í dag. Malvo hlaut lífstíðar fangelsisdóm fyrir sinn hlut að morðunum.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×