Viðskipti innlent

Landsvirkjun tapaði nær 40 milljörðum í fyrra

Á árinu 2008 var tap af rekstri samstæðu Landsvirkjunar 344,5 milljónir dollara eða tæplega 40 milljarðar kr. Hinsvegar var rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta 246 milljónir dollara eða rúmlega 27 milljarðar kr.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að handbært fé frá rekstri nam 184,4 milljónum dollara. Í árslok námu heildareignir samstæðunnar 4,6 milljörðum dollara eða um 524 milljarðar kr. og eigið fé nam tæplega 1,4 milljörðum dollara. Eiginfjárhlutfall er 29,8% í árslok 2008.

Rekstrartekjur aukast um 83 milljónir dollara epa hátt í 10 milljarða kr. sem er að verulegu leyti vegna aukinnar orkusölu með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Rekstrarkostnaður án afskrifta nam 100,5 milljónum dollara á árinu en var 105,8 milljónir dollara árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 660,6 milljónum dollara sem skýrist aðallega af lækkun á virði innbyggðra afleiða í orkusölusamningum sem tengdir eru álverði og gengistapi. Gengistapið og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 4,51% á árinu 2008 en þeir voru um 4,69% árið áður.

Gengisþróun og gangvirðisbreytingar á innbyggðum afleiðum munu sem áður ráða miklu um afkomu Landsvirkjunar í ár. Fyrirtækið hefur aðgang að lausafé og lánum sem ásamt fé frá rekstri mun tryggja að fyrirtækið getur mætt núverandi skuldbindingum sínum á þessu og næsta ári. Landsvirkjun mun ekki ráðast í nýjar framkvæmdir nema að félaginu takist að afla nýrra langtímalána








Fleiri fréttir

Sjá meira


×