Viðskipti innlent

Tæplega 15.000 heimili með neikvæða eiginfjárstöðu

Alls eru 14.600 heimili á landinu með neikvæða eiginfjárstöðu, það er skuldirnar eru meiri en eignirnar. Af þessum fjölda eru 5.000 heimili með neikvæða stöðu upp á yfir fimm milljónir kr.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum starfhóps Seðlabanka Íslands sem safnað hefur saman og unnið úr gögnum um áhrif fjármálakreppu á efnahag heimilanna.

Af 67 þúsund húseigendum með lán í krónum eru 11.200 heimili í neikvæðri eiginfjárstöðu. Þar af eru 2.600 með meira en 5 milljónir kr. í neikvæðri eiginfjárstöðu.

Af 8.900 heimilum með lán í erlendri mynt eða blönduð lán eru 3.400 í neikvæðri eiginfjárstöðu. Þar af eru 2.400 með meira en 5 milljónir kr. í neikvæðri eiginfjárstöðu

Af 80 þúsund húseigendum í gagnagrunninum þá eru 70 þúsund með húsnæðisskuldir sem eru minni en 30 milljónir kr.

Mánaðarleg greiðslubyrði fasteignaveðlána 75% heimila í gagnagrunninum er minni en 100 þúsund kr. Aukning á mánaðarlegri greiðslubyrði fasteignaveðlána í krónum er í flestum tilvikum minni en 50 þúsund kr.

Um 30% heimila eingöngu með fasteignaveðlán í erlendri mynt hafa orðið fyrir meira en 50 þúsund kr. hækkun greiðslubyrðar. Hið sama á við tæplega 18% heimila með blönduð fasteignaveðlán

Mánaðarleg greiðslubyrði bílalána er minni en 50 þúsund kr. hjá 70% heimila í gagnagrunninum og milli 50 og 100 þúsund kr. hjá 24% heimila. Greiðslubyrði af bílalánum hefur aukist um 0-50 þúsund kr. hjá 74% heimila. 68% heimila sem eru bæði með fasteignaveðlán og bílalán eru með heildargreiðslubyrði sem er minni en 150 þúsund kr.

Upplýsingar sem fyrrgreindar niðurstöður eru unnar úr ná til húsnæðiseigna og -skulda um 80 þúsund heimila.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×