Viðskipti innlent

Innlán SPRON of stór biti fyrir aðra sparisjóði

Umfang SPRON var of stórt til þess að unnt hefði verið að færa innlán sparisjóðsins inn í aðra sparisjóði í stað þess að færa þau til Kaupþings. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, spurði Gylfa Magnússon viðktiptaráðherra að þessu í umræðum sem fram fóru í dag á þingi í kjölfar greinargerðar Gylfa varðandi aðgerðir gegn SPRON og Sparisjóðabankanum um helgina.

Gylfi sagði að þessi hugmynd hefði ekki reynst raunhæf, stærðarinnar vegna. Auk þess hefði enginn annar sparisjóður en Byr komið til greina til þess að taka að sér innlánin í ljósi þess að flestir viðskiptavina SPRON eru á höfuðborgarsvæðinu.

Í greinargerð Gylfa kom meðal annars fram að óskandi hefði verið að tilkynna starfsfólki fyrirtækjanna um uppsagnir sínar á annan hátt en gert var, en að það hefði ekki verið hægt. Gylfi sagðist einnig sjá sparisjóðakerfið í framtíðinni sem marga staðbundna sjóði sem þjóni einstaklingum og smærri fyrirtækjum í sínum byggðalögum.

Auk þess væri æskilegt að hafa einn öflugan sparisjóð á höfuðborgarsvæðinu. Að auki sagði Gylfi ljóst að hlutafélagavæðing sparisjóðanna hefði augjlóslega verið misráðinn kostur og að í framtíðinni hlytu menn að standa vörð um stofnfjárhluta fyrirkomulagið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×