Viðskipti innlent

Mikill áhugi á ríkisbréfum er léttir fyrir stjórnvöld

Mikill áhugi fjárfesta í ríkisbréfaútboði síðastliðinn föstudag hlýtur að vera stjórnvöldum nokkur léttir eftir dræmar undirtektir í útboðinu þar á undan.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í útboðinu á föstudaginn var tekið tilboðum fyrir 15 milljarða kr. í þrjá lengstu ríkisbréfaflokkana líkt og áætlað hafði verið, en alls bárust gild tilboð fyrir ríflega 25 milljarða kr. að nafnvirði.

Mikill áhugi á lengsta ríkisbréfaflokknum í útboðinu er athyglisverður. Alls var tilboðum tekið fyrir rúma 10 milljarða kr. að nafnverði á 8,82% ávöxtunarkröfu. Er flokkurinn því orðinn u.þ.b. 64 milljarðar kr. að stærð að lánsbréfum meðtöldum.

Það er mat greiningarinnar að afar jákvætt sé að fjárfestar skuli sækja í óverðtryggð skuldabréf með jafn langan líftíma og þessi flokkur hefur (u.þ.b. 7 ár) því skilvirk myndun á óverðtryggðum langtímavöxtum á markaði er forsenda fyrir því að hægt sé að bjóða upp á óverðtryggð langtímalán til heimila og fyrirtækja.

Í næstlengsta ríkisbréfaflokknum var tekið tilboðum fyrir 3,4 milljarða kr. að nafnverði á 9,03% ávöxtunarkröfu en í stysta flokknum var tilboðum tekið fyrir 1,5 milljarða kr. á 9,98% ávöxtunarkröfu. Í fyrrnefnda flokknum var aðeins tekið helmingi innsendra tilboða og í þeim síðarnefnda var þriðjungi tilboða tekið, á meðan þremur fjórðuhlutum innsendra tilboða í lengsta flokkinn var tekið.

Þetta er í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að jafna endurgreiðsluferil ríkisbréfa og lengja meðallíftíma skulda ríkissjóðs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×