Skoðun

Vill ESB upptökuleiðina?

Markmið íslenskra stjórnvalda hefur um langa hríð verið að íslenskur sjávarútvegur sé sjálfbær og arðbær. Til þess að ná því marki höfum við komið á kvótakerfi til að stýra sókn í takmarkaða auðlind. Þannig er ekki einungis horft til þess að takmarka aflann úr hverjum stofni við það sem stjórnvöld ákveða á hverjum tíma heldur einnig horft til þess að veiðar og vinnsla skili hámarks arðsemi.

Til að fiskveiðistjórn skili árangri er grundvallaratriði, að þeir sem nýta fiskistofnana hafi sömu hagsmuni og þjóðin af því að nýtingin sé sjálfbær. Að ekki sé veitt meira á hverjum tíma en stofnarnir þola. Verðmætasta fjárfesting útgerðanna er í aflaheimildunum og til að ná fram langtímahugsun í nýtingu þarf sú fjárfesting að vera trygg. Það tryggir jafnframt rekstrargrundvöll útgerðanna sem hafa fjárfest í aflaheimildum með langtímahagsmuni að leiðarljósi. Með þessu fléttast saman hagsmunir útgerðarinnar og þjóðarinnar, sem nýtur fyrir vikið hámarks arðsemi af nýtingu auðlindarinnar.

Evrópusambandið hefur átt í erfiðleikum með sjávarútveg sinn um langa hríð. Þar kemur margt til, en því hefur almennt ekki auðnast að færa ábyrgðina til þeirra sem nýta fiskistofnana og tengja þannig saman ávinning og ábyrgð. Á því eru þó undantekningar.

Joe Borg, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, lýsir ástandinu í sjávarútvegsmálum ESB ágætlega í grein í Fréttablaðinu í gær. Því miður getur hann ekki gert betur á þessari stundu en að ímynda sér „að evrópskur sjávarútvegur væri bæði arðbær og sjálfbær atvinnuvegur". Joe Borg kallar eftir tillögum og sjónarmiðum um það hvernig best sé að móta evrópskan sjávarútveg til framtíðar og lýsir sérstaklega eftir aðstoð frá Íslandi „vegna reynslu og þekkingar Íslendinga í þessum málaflokki".

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands er boðuð upptaka aflaheimilda útgerðanna. Þessi stefna vinnur bæði gegn markmiðum um sjálfbærni og arðbærni. Engin eftirspurn er eftir upptökuleið ríkisstjórnar Íslands í íslenskum sjávarútvegi og engin sjávarútvegsþjóð þessa heims beitir henni. Skyldi það vera þessi „reynsla og þekking" sem Joe Borg er að kalla eftir frá Íslandi?

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna




Skoðun

Sjá meira


×