Viðskipti innlent

Íslendingar mun bjartsýnni en þeir voru í febrúar

Íslendingar eru mun bjartsýnni nú í mars en þeir voru í febrúar.
Íslendingar eru mun bjartsýnni nú í mars en þeir voru í febrúar.
Væntingavísitala Capacent Gallup fyrir marsmánuð var birt í morgun og hefur hún hækkað um 55% frá fyrri mánuði. Vísitalan stendur nú í 37,8 stigum sem er hæsta gildi sem hún hefur náð frá bankahruninu í október. Vísitalan er engu að síður enn mjög lág og er til að mynda 57% lægri en hún var fyrir ári síðan og 75% lægri en hún var árið 2007 þegar hún var í hæstu hæðum.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er rýnt í undirliðun vísitölurnar. Þar kemur í ljós að neytendur telja núverandi ástand enn vera mjög slæmt og verra nú en það var fyrir mánuði síðan en væntingar til næstu 6 mánaða hafa hinsvegar batnað umtalsvert og hækkar sú vísitala um 23% frá fyrri mánuði. Neytendur eru einnig bjartsýnni nú en fyrir mánuði síðan varðandi mat sitt á atvinnuástandi og efnahagslífinu almennt þó enn séu þessar vísitölur vissulega enn mjög lágar í samanburði við síðustu misseri.

Segir Greining Íslandsbanka að fróðlegt verði að fylgjast með hvort þessi viðsnúningur sé varanlegur og hvort vísitalan haldi áfram að hækka á næstu mánuðum eða hvort hin nýfengna bjartsýni verður brotin á bak aftur af áframhaldandi óvissu um efnahagshorfurnar framundan og vaxandi atvinnuleysi á komandi mánuðum. Þá segir Greining Íslandsbanka að það gæti einnig haft áhrif að mælingin á vísitölunni fór fram í fyrri hluta marsmánaðar á meðan krónan var ennþá að styrkjast. Í seinni hluta mánaðarins hafi hins vegar farið að halla undan fæti og hafi krónan veikst um 13% gagnvart helstu gjaldmiðlum síðan um miðjan mánuð eftir að hafa verið í stöðugu styrkingarferli frá því um miðjan janúar. Haldi krónan áfram að veikjast gæti það haft áhrif á næstu mælingu enda er það ljóst að áframhaldandi veiking krónunnar er hættumerki fyrir bata efnahagslífsins.

Þrátt fyrir að bjartsýni er almennt að glæðast í þjóðarsálinni er hún mismikil eftir því á hvaða aldri svarendur eru og hvaða tekjuhópum þeir tilheyra. Yngsta kynslóðin er svartsýnni en þeir sem eldri eru og þeir sem eru með lægri tekjur virðast bjartsýnni en þeir sem hafa háar tekjur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×