Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs vel undir 400 punktum

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs hefur stöðugt lækkað undanfarna mánuði og er nú komið niður í tæpa 376 punkta. Hefur álagið ekki verið lægra í meir en eitt ár eða síðan síðasta sumar.

Hæst fór álagið í töluvert yfir 800 punkta síðasta vetur og hefur því lækkað um ríflega helming síðan þá.

Ísland er þó áfram í fimmta sæti hjá CMA yfir þær 10 þjóðir sem hafa hæsta skuldartrygginaálag í heiminum þrátt fyrir þessa miklu lækkun. Þetta skýrist af því að álagið hefur einnig farið lækkandi hjá hinum þjóðunum sem skipa listann. Sem dæmi má nefna að líkurnar á þjóðargjaldþroti Argentínu, sem trónir efst á listanum, eru nú metnar 53%. Í byrjun júlí voru líkurnar í 73%.

CMA metur nú líkurnar á þjóðargjaldþroti á Íslandi í 22% en í byrjun sumars voru þessar líkur metnar vera 37%.

Listi þjóða fyrir ofan Ísland er óbreyttur en tvær breytingar hafa orðið á neðri fimm sætum hans. Þar eru Búlgaría og Rúmenía dottin út en Líbanon og Kalifornía komin inn.

Skuldatryggingaálag á ríkissjóð í 376 punktum samsvarar því að reiða þurfi fram rúm 3,7% af nafnverði skuldabréfs til að tryggja eiganda þess gegn greiðslufalli næstu 5 árin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×