Erlent

Dugar í eina sprengju á ári

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti á tali við íranskan þingmann.fréttablaðið/AP
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti á tali við íranskan þingmann.fréttablaðið/AP

Í nýrri skýrslu Alþjóðakjarnorkueftirlitsins segir að Íranar hafi flutt háþróaðan tæknibúnað til auðgunar úrans á stað sem áður var leynilegur. Vinnsla þar eigi að hefjast árið 2011.

Í skýrslunni, sem er sjö blaðsíður, segir að nýja kjarnorkustöðin eigi að geta framleitt um eitt tonn af auðguðu úrani á ári. Það myndi duga í eina kjarnorkusprengju, en er of lítið til að fullnægja þörfum nánast fullbúins kjarnorkuvers í Bushehr og annarra kjarnorkuvera sem Íranar segjast ætla að nota í friðsamlegum tilgangi á næstu árum.

Í skýrslunni segir að Íranar hafi komið sér upp 8.600 skilvindum til auðgunar úrans, en einungis 4.000 þeirra séu í notkun. Þeir hafi nú þegar framleitt um 1.800 kíló af auðguðu úrani, sem dugar næstum því í tvær kjarnorkusprengjur.

Ali Asghar Soltanieh, kjarnorkufulltrúi Írans, segir skýrsluna sýna að eftirlitsmennirnir hafi engar sannanir fundið fyrir því að Íranar hafi í hyggju að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Íranar hleyptu vestrænum eftirlitsmönnum ekki inn í landið til þess að skoða kjarnorkustöðina fyrr en upp komst um tilvist hennar í sumar. Að Íranar hafi starfrækt hana með leynd vekur hins vegar áhyggjur um að fleiri leynilegar kjarnorkustöðvar kunni að vera að finna í landinu.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×