Viðskipti innlent

Sex góðar ástæður fyrir því að flytja til Íslands

Vefsíðan businessinsider,com hefur birt huggulega grein fyrir reiða og sára Bandaríkjamenn sem vilja flýja landið í fjármálakreppunni. Vefsíðan segir að sex góðar ástæður séu fyrir því að menn ættu að íhuga að flytja til Íslands.

Sú fyrsta er að landið er þegar hrunið og gjaldmiðill þess verðlaus. Menn þurfa því ekki að hafa áhyggjur af komandi hruni.

Í öðru lagi skiptir landfræðileg lega landsins engu máli. „Hver mun gera sprengjuárás á Reykjavík ef þriðja heimsstríðið skellur á?" spyr vefsíðan.

Þriðja ástæðan er sú að landið býr yfir miklum náttúrlegum auðæfum svo sem fiski og orkuauðlindum. Ok, maður lifir ekki á fiski og orku einni saman. Þú þarft líka nettengingu og Ísland hefur hana.

Í fjórða lagi er landið mjög friðsælt. Það voru að vísu mótmæli vegna hruns efnahagskerfisins en þau voru að mestu laus við ofbeldi. Samfélagið er mjög samhelt og litlar líkur á því að þú þurfir að safna vopnum þótt eitthvað gefi á bátinn.

Fimmta ástæðan sem nefnd er að þar séu tiltölulega fáir kúgaðir og reiðir innflytjendur eins og víða í Evrópu og því þarf Ísland ekki að leysa úr slíku þjóðfélagsvandamáli.

Og sjötta ástæðan er bónus. Íslendingar eru allir mjög fallegt fólk.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×