Viðskipti innlent

Kaupþing eignist 40% í Högum

Allt stefnir í að nýja Kaupþing eignist 40% í Högum og Jón Ásgeir Jóhannesson og aðrir fjárfestar haldi 60% hlut í félaginu með því að leggja fram 7 milljarða. Með þessu yrði núverandi móðurfélag Haga skuldlaust og úr sögunni. Erlendir kröfuhafar bera að mestu leyti tugmilljarða króna tjónið sem fylgir þessu.

Hagar, sem reka meðal annars verslanirnar Hagkaup, Bónus og 10-11 eru eina eign eignarhaldsfélagsins 1998. Það félag er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu. Árið 2008 fékk félagið rúmar 260 milljónir evra að láni hjá Kaupþingi til að kaupa Haga út úr Baugi. Miðað við núverandi gengi krónunnar nemur sú skuld ríflega 48 milljörðum króna. Líkt og gildir um aðrar innlendar eignir bankans var skuld 1998 við Kaupþing flutt yfir í nýja bankann við bankahrunið.

Endurskipulagning á eignarhaldi Haga stendur yfir þessa dagana en tveir fulltrúar frá nýja Kaupþingi hafa þegar tekið sæti í stjórn 1998.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stefnir allt í að Kaupþing leysi til sín 40% hlut í Högum vegna tug milljarða skuldar eiganda Haga við bankann. Þá muni Jón Ásgeir Jóhannesson og ónafngreindir viðskiptafélagar hans eignast 60% hlut í Högum - en til þess þurfa þeir að leggja fram 7 milljarða. Samkomulag þetta sem nú er á teikniborðinu felur einnig í sér að núverandi móðurfélag Haga, 1998, verði skuldlaust og úr sögunni.

En hvað verður þá um hátt í fimmtíu milljarða skuld 1998 hjá Kaupþingi? Það er ljóst að skuldin var flutt yfir í nýja bankann með afföllum, líkt og á við um stóran hluta þeirra eigna sem fluttar voru úr gömlu bönkunum í þá nýju. Í raun bera erlendir kröfuhafar því tjónið.

Hins vegar er ljóst ef þetta gengur eftir að Kaupþing er að afskrifa tugi milljarða króna, sem hlýtur þá að vera í samræmi við væntingar bankans þegar skuldin var yfirtekin úr gamla bankanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×