Viðskipti innlent

Heildarvaxtagreiðslur ríkissins tæpir 90 milljarðar

Ingimar Karl Helgason skrifar

Vextir af láni Íslendinga hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eru aðeins brot af heildarvaxtargreiðslum ríkissjóðs þetta árið. Ekki liggur enn fyrir hvað ríkið skuldar og þarf að greiða í vexti.

Við greindum frá því í gær að fyrsti hluti lánsins sem við fengum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefði þegar kostað hálfan milljarð króna. Það á við vaxtamun, sem er fólginn í því að enda þótt lánið sé ekki notað og liggi á reikningi í New York, þá eru vextirnir þar um tveimur prósentustigum lægri en þeir sem við þurfum að greiða til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ætla má að vextirnir af fyrsta hluta lánsins, sem eru 830 milljónir Bandaríkjadala, kosti um fimm milljónir króna á dag. Þetta gera um hálfan milljarð króna á þeim hundrað dögum sem liðnir eru frá því að við fengum lánið í hendur. Síðan á raunar eftir að bætast við lánið í ár, ef að líkum lætur, en það er ríflega tveir milljarðar dala í heildina. Ef við reiknum gróft, má ætla að vextirnir af láninu frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum kosti nettó, ekki innan við tvo milljarða króna á ári.

Það mætti nýta þetta fé með margvíslegum hætti:

Þjóðminjasafnið 463 milljónir

Fjármálaeftirlitið 1,1 milljarður

Hafrannsóknarstofnun 1,5 milljarðar

Háskólinn í Reykjavík 2,1 milljarður

Heildarvaxtagreiðslur Íslenska ríkisins eru hins vegar miklu miklu meiri en þetta. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að vaxtakostnaðurinn verði 86,9 milljarðar króna.

Fyrir þetta fé mætti reka landspítalann í heilt ár (32 milljarðar), og alla framhaldsskóla og háskóla í landinu, en heildarútgjöld menntamálaráðuneytis samkvæmt fjárlögum nema 58 milljörðum króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×