Innlent

Lækka á fjárlagahallann um 86 milljarða á tveimur árum

Ríkisstjórnin hyggst lækka fjárlagahallan mikið á næstu mánuðum og árum.
Ríkisstjórnin hyggst lækka fjárlagahallan mikið á næstu mánuðum og árum.

Skera á ríkisútgjöld niður og afla nýrra tekna til að ná hallanum á ríkissjóði niður um samtals 86 milljarða króna á árunum 2009 og 2010.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður um sextíu prósentum þessarar upphæðar náð fram með niðurskurði útgjalda og um fjörutíu prósentum með auknum tekjum. Ætlunin er sú að á árinu 2013 verði fjárlögin hallalaus.

Meðal hagræðingaraðgerða sem stefnt er að er mikil endurskipulagning ríkisstofnana. Þar á meðal mun vera rætt um sameiningu Varnarmálastofnunar og Landhelgisgæslunnar og verulegar breytingar á embætti Ríkislögreglustjóra. Þá á að veita verkefnum sem nú eru hjá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Söfn á landsbyggðinni verða sameinuð og sumar stofnanir lagðar niður. Rætt er um fækkun sendiráða og sölu sendiráðsbygginga erlendis, mikla fækkun sýslumannsembætta og fækkun skattstofa, sem verði sameinaðar Ríkisskattstjóra.

Spara á í rekstri ríkisins. Meðal annars verði ferðakostnaður á næsta ári aðeins helmingur þess sem hann var hjá ríkinu í fyrra. Lækka á útgjöld vegna stjórna og nefnda um helming og forðast í lengstu lög að ráða utanaðkomandi ráðgjafa til ríkisins.

Laun hjá yfirmönnum ríkisstofnana og -fyrirtækja verða felld undir kjararáð. Fara á sérstaklega yfir laun ríkisstarfsmanna með mánaðartekjur yfir 400 þúsund krónum og lækka hlutfallslega mest laun þeirra sem hafa hæstu launin. Aksturskostnaður og risna verða skorin niður.

Af áðurnefndum 86 milljörðum má nefna að spara á 5,5 milljarða í almannatryggingakerfinu, til dæmis með lækkun á frítekjumarki ellilífeyrisþega. Draga á úr framlögum til Þjóðkirkjunnar um 450 milljónir og 420 milljónir sparist með því að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði verði 350 þúsund krónur. Virðisaukaskattur á sumar matvörur, á borð við sykur, sem áður báru sjö prósenta skatt, verður eftirleiðis 24,5 prósent.

Til að standa straum af sívaxandi útgreiðslum úr Atvinnuleysis­tryggingasjóði verður tryggingagjald fyrirtækja hækkað úr 0,65 prósentum í 2,21 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×