Viðskipti innlent

Straumur mun taka West Ham yfir

Helga Arnardóttir skrifar
Straumur ætlar að taka West Ham United yfir á næstu dögum. Félagið hefur verið í eigu Björgólfs Guðmundssonar síðustu þrjú ár. Beðið verður með að selja félagið þar sem viðunandi verðtilboð hefur ekki borist.

Straumur er stærsti kröfuhafinn í félaginu Hansa sem á West Ham og á um tvö þriðju af öllum kröfum í félaginu. Unnið hefur verið að því frá því í nóvember, skömmu eftir bankahrunið að selja fótboltaklúbbinn.

Fjölmargir hafa sýnt honum áhuga en ekki hefur fengist ásættanlegt verð fyrir hann samkvæmt heimildum fréttastofu. Meðal annarra íslenskra kröfuhafa í Hansa eru Byr, MP banki og Landsbanki. Ákveðið var fyrir nokkru að hætta við að selja klúbbinn og Straumur tæki yfir eignarhaldsfélag hans fyrir hönd allra kröfuhafa.

Félagið Hansa er í greiðslustöðvun fram til 8.júní. Björgólfur Guðmundsson er formaður stjórnar West Ham og rambar nú á barmi gjaldþrots. Þá er Ásgeir Friðgeirsson varaformaður stjórnar klúbbsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu er líklegt að þeir víki úr stjórn klúbbsins taki Straumur hann yfir. Ásgeir vildi ekkert staðfesta í þessum efnum en sagði formlegt söluferli enn í gangi.

Fjármálaeftirlitið tók Straum yfir í febrúar síðastliðnum. Unnið hefur verið að því að selja allar hans eignir en þeim eignum sem ekki seljast á ásættanlegu kaupverði vegna efnahagsástandsins, verður haldið þangað til viðunandi verð fæst fyrir þær. Talsmenn Straums vildu ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Ekki náðist í Reyni Vigni formann Skilanefndar Straums.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×