Viðskipti innlent

Vonandi hægt að kjósa um tillögu að nauðarsamningi eftir miðjan september

Georg Andersen forstöðumaður samskiptasviðs Straums segir að á fundi kröfuhafa bankans hafi kröfuhöfum bankans verið kynntar hugmyndir núverandi framkvæmdastjórnar um hugsanlegan nauðungarsamning og skipulag bankans til framtíðar.

Tveir fundir fóru fram í dag, annars vegar formlegur fundur slitastjórnar til þess að kynna fyrir kröfuhöfum kröfur og afstöðu slitastjórnar gagnvart þeim. Hinsvegar var haldinn fundur af framkvæmdastjórn Straums til þess að kynna fyrir kröfuhöfum hugmyndir framkvæmdastjórnar um hugsanlegan nauðungarsamning og endurskipulagningu fyrirtækisins í kjölfarið.

Georg segir fundinn hafa verið óformlegan þar sem það sé ekki á valdi núverandi framkvæmdastjórnar hvernig fyrirtækið mun líta út í framtíðinni. „Það verður í valdi nýrrar stjórnar sem verður að miklu leyti samsett af lánadrottnum. Hinsvegar eru þetta hugmyndir sem hafa verið unnar í samvinnu við óformlega nefnd lánadrottna," segir hann.

Georg segir ennfremur að enn sem komið er séu menn þó ekki fullkomlega sammála um þessar tillögur og því verði áfram unnið að því að ná lendingu. Aðspurður hvenær búast megi við niðurstöðu nefnir Georg miðjan september. „Það næsta sem þarf að gera er að menn þurfa að ákveða endanlega tillögu um nauðungarsamning. Síðan þarf að leggja hana fram og kjósa um hana og ég vona að það verði einverntíman eftir miðjan september," segir hann að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×