Handbolti

RH Löwen missti niður unninn leik í jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson í leik með Rhein Neckar Löwen.
Ólafur Stefánsson í leik með Rhein Neckar Löwen. Nordic Photos / Bongarts

Pólska liðinu KS Kielce tókst að tryggja sér jafntefli gegn Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi í kvöld með því að skora jöfnunarmarkið þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Rhein-Neckar Löwen er því með þrjú stig eftir tvo leiki í sínum riðli í Meistaradeild Evrópu. Liðið var með tveggja marka forystu þegar þrjár mínútur voru eftir en gestirnir skoruðu tvö síðustu mörk leiksins.

„Þetta var skref aftur á bak," sagði Ólafur Stefánsson á heimasíðu RN Löwen eftir leikinn og gagnrýndi einnig frammistöðu sína í leiknum. „Ég þarf að standa mig talsvert betur en þetta."

Ólafur skoraði eitt mark í leiknum. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tvö og Snorri Steinn Guðjónsson eitt. Karol Bielecki var markahæstur í liði Löwen og skoraði alls tíu mörk.

Þjálfari Kielce er Bogdan Wenta sem einnig er þjálfari pólska landsliðsins og fyrrum þjálfari Magdeburg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×