Viðskipti innlent

Ekki hægt að alhæfa um stöðu stofnfjáreigenda Byrs

Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs.
Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs.

„Varðandi ummæli sem höfð eru eftir Guðjóni Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sparisjóða, um að stofnfjáreigendur Byrs séu of skuldsettir til að styrkja bankann, er rétt að geta þess að hjá Byr eru um 1.500 stofnfjáreigendur," segir Ragnar Z. Guðjónsson, sparistjóðsstjóri Byrs.

Hann bendir á að um fjölbreyttan hóp fyrirtækja og einstaklinga sé að ræða, sem hafa ýmist átt stofnfé hjá Byr um jafnvel áratuga skeið eða komið nýir inn í hópinn á undanförnum misserum. „Ekkert verður alhæft um stöðu hópsins almennt enda liggja þær upplýsingar hvergi fyrir," segir hann.

Að sögn Ragnars stóð Byr frammi fyrir því á árinu 2007 að þurfa að auka stofnfé sitt verulega, meðal annars vegna sameininga við aðra sparisjóði og harðnandi samkeppni við viðskiptabankana. Stofnfjáreigendur Byrs lögðu því fram 26,9 milljarða króna í auknu stofnfé það árið.



„Sparisjóður getur lögum samkvæmt eingöngu greitt arð af stofnfé sínu. Þar sem arðsemi eigin fjár á árinu 2007 náði 44% auk þess sem árið var mesta hagnaðarár Byrs, var um óvenjuháa arðgreiðslu að ræða eða 13,5 milljarð króna," segir Ragnar og bætir við að þó að ákvörðun um umrædda aðrgreiðslu hafi verið tekin með hliðsjón af sterkri stöðu sparisjóðsins, „verður hún að teljast óheppileg með tilliti til þeirrar atburðarrásar sem síðar varð og leiddi til hruns bankakerfisins."

Að lokum segir Ragnar að tap sparisjóðsins samkvæmt ársuppgjöri 2008 megi að mestu rekja til „varúðarniðurfærslna" á eignum sjóðsins. „Arðgreiðslan kemur hvergi þar nærri og hefur engin áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins 2008 frekar en aðrar arðgreiðslur sparisjóða," segir Ragnar að lokmum.




Tengdar fréttir

Stofnfjáreigendur Byrs geta ekki styrkt bankann

Stofnfjáreigendur Byrs eru of skuldsettir til að styrkja bankann að mati Guðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka sparisjóðanna. Bankinn tapaði 29 milljörðum króna í fyrra en inni í því tapi er arðgreiðsla til stofnfjáreigenda upp á 13 milljarða. Bankinn hefur nú óskað eftir aðstoð frá ríkinu upp á rúma 10 milljarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×