Viðskipti innlent

Rýr afgangur af vöruskiptum ekki merki um verri horfur

Greining Íslandsbanka telur rýran afgang af vöruskiptum í september ekki til marks um verri horfur í utanríkisviðskiptum á næstunni.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar en Hagstofan greindi frá því í morgun að ríflega 3 ma.kr. afgangur var af vöruskiptum í september. Er þetta minnsti afgangur á mánuði sem af er árinu.

Í Morgunkorninu segir að álverð hafi til að mynda haldið ágætlega sjó eftir snarpa hækkun yfir hásumarið, og því eru allar líkur á að álútflutningur reynist talsvert meiri í október en raunin virðist hafa verið í síðasta mánuði.

Svipað má í raun segja um innflutningsliðina. Eldsneytis- og hrávöruverð hefur verið í ákveðnu jafnvægi á heimsmörkuðum og engin teikn eru á lofti um að eftirspurn eftir eldsneyti, hrávörum eða öðrum neysluvörum en brýnustu nauðsynjum sé að vaxa hér innanlands þessa dagana.

„Því gerum við ráð fyrir talsvert meiri afgangi að jafnaði af vöruskiptum á síðasta fjórðungi ársins en raunin var í september," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×