Viðskipti innlent

Glitnir var með svipaða lánastefnu og Kaupþing

Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis segir í samtali við Bloomberg fréttaveituna að Glitnir hafi haft svipaða lánastefnu og Kaupþing, það er lán til skyldra aðila og eigenda bankans.

 

"Mörg af þeim fyrirtækjum sem Glitnir á stórar kröfur í voru í tengslum við eigendur bankans og stjórnarmenn hans," segir Árni. Hann nefnir sem dæmi Milestone, Baug, FL Group og Landic Properties.

 

Þá nefnir Árni Tómasson að auk þessa hafi Glitnir lánað mikið til fyrirtækja erlendis sem voru í eigu Íslendinga. "Reynsla okkar er sú að þessi fyrirtæki eru ekki mikils virði í dag og líkur á endurheimtum eru takmarkaðar," segir Árni.

 

Fram kemur í samtalinu að kröfuhafar Glitnis megi reikna með að fá á bilinu 22% til 36% af kröfum sínum í þrotabú bankans endurgreiddar. Þetta er meðal annars vegna þess að eignasafn hans verður minna en gert var ráð fyrir.

 

Eignir Glitnis eru metnar á 4 milljarða evra eða um 730 milljarðar kr. en á móti nema kröfurnar 13,7 milljörðum evra eða um 2.500 milljörðum kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×