Innlent

Rektor: HÍ nái öllum markmiðum sínum

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Kristín Ingólfsdóttir Háskólarektor.
Kristín Ingólfsdóttir Háskólarektor. Mynd/Stefán

„Horfur eru á að skólinn muni ná öllum þeim markmiðum sem sett voru og felld inn í afkastatengdan samning við ríkisvaldið," sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningu skólans í dag.

Vísar hún þar til markmiðasetningar háskólans fyrir árin 2006 til 2011, en þar er meðal annars stefnt að fimmföldun doktorsnema við skólann á tímabilinu. Kristín lagði áherslu á áhrif doktorsverkefna við HÍ á atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Kristín sagði Íslendinga eiga verk að vinna í kjölfar efnahagserfiðleika undanfarinna mánaða.

„Við sem eigum mest undir fjárveitingu frá ríkinu verðum að tryggja að eins vel sé farið með fjármuni og kostur er," sagði Kristín einnig, en benti jafnframt i á að hlúa þyrfti að því sem best er gert og skapar okkur sérstöðu og áþreifanlegan árangur.

„Ef við náum þannig að styrkja menntakerfið, og nýta það sem lið í að varða leiðina úr þrengingunum, komum við vel undirbúin til leiks þegar þessu samdráttarskeiði lýkur. Til þess verðum við að hugsa stórt, hafa heildarhagsmuni í huga og þor til að taka erfiðar ákvarðanir. Ef menntakerfið fellur hinsvegar í far meðalmennsku verðum við lengi að ná okkur á strik aftur," sagði Kristín.




Tengdar fréttir

Yfir 1500 manns að útskrifast úr HÍ

Vel yfir fimmtán hundruð manns útskrifast úr Háskóla Íslands í dag og hafa þeir aldrei verið fleiri í sögu háskólans. Útskriftin fer fram í Laugardalshöll og er fjöldinn slíkur að brautskráningin verður í tvennu lagi, klukkan 11 og síðan aftur klukkan 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×