Viðskipti innlent

Einn af hverjum fimm erlendum ríkisborgurum er atvinnulaus

Alls voru tæplega 2.000 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok febrúar sem nemur því að tæplega 13% allra sem voru skráðir atvinnulausir í lok síðasta mánaðar hafi verið erlendir ríkisborgarar eða einn af hverjum fimm þeirra.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að um það bil 65% þeirra útlendinga sem voru skráðir atvinnulausir í lok febrúar voru Pólverjar.

Alls störfuðu 778 þeirra útlendinga sem hafa misst vinnuna í byggingariðnaði eða um 40% þeirra sem misst hafa vinnuna. Þetta þarf varla að koma á óvart þegar höfð er í huga sú erfiða staða sem byggingariðnaðurinn er nú í vegna gjörbreyttra efnahagsaðstæðna.

Atvinnuleysi hefur aukist hratt meðal útlendinga frá því að bankahrunið skall á í haust líkt enda aðstæður á vinnumarkaði nú gjörbreytt frá því sem áður var. Í lok september voru aðeins 122 útlendingar skráðir án atvinnu og hefur þeim því fjölgað um 1.830 síðan þá. Samkvæmt þessu er einn af hverjum fimm erlendum ríkisborgurum sem enn eru skráðir á vinnumarkað hér á landi atvinnulaus.

Samkvæmt mati Vinnumálastofnunnar eru nú um 10.000 erlendir ríkisborgarar á íslenskum vinnumarkaði og hefur þeim fækkað um 6.000 frá því að bankahrundið skall á síðastliðið haust. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að í sumar hafi þeim enn fækkað og að þá verði eftir um 9.000 erlendir ríkisborgarar á íslenskum vinnumarkaði.

Þetta er mikil viðsnúningur frá seinni hluta ársins 2007 því þegar mest var en talið er að þegar mest lét hafi um 20 þúsund erlendir ríkisborgarar verið á vinnumarkaði hér á landi eða sem nemur um það bil 10% af heildarvinnuafli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×