Viðskipti innlent

Fitch Rating telur litlar líkur á að Alþingi hafni Icesave

Fitch telur litlar líkur á að Alþingi neiti Icesave samningnum.
Fitch telur litlar líkur á að Alþingi neiti Icesave samningnum.

Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Rating, telur mjög litlar líkur á að Alþingi Íslendinga neiti Icesave lánssamningnum þar sem mikill pólitískur vilji er í landinu í að koma hagkerfinu á réttan kjöl. Þetta er haft eftir Paul Rawkins, framkvæmdastjóra hjá Fitch Rating í London.

Fitch metur lánshæfi íslenska ríkisins BBB- með neikvæðum horfum, einni einkunn fyrir ofan svokölluð rusl skuldabréf (Junk Bonds).

Ríkisstjórnin hefur, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, boðað lækkun ríkisútgjalda og skattahækkanir til að draga úr fjárlagahalla ríkisins.

„Skuldir almennings aukast hratt og kostnaðurinn við að reisa bankakerfið eykur á vandann. Við bíðum eftir að þessir hlutir skýrist áður en við ljúkum okkar mati á lánshæfiseinkunn ríkisins," segir Rawkins.

„Það versta sem getur komið fyrir Ísland hefur þegar gerst. Bankakerfið hefur sprungið, gjaldmiðillinn hrapað og hagkerfið er á leiðinni í djúpa efnahagslægð," bætir Rawkins við.

Ástæðan fyrir því að Ísland er enn með einkunnina BBB- er sú að ríkið hefur ekki enn lent í vanskilum á ríkisskuldabréfum.

„Innlendir skuldabréfamarkaðir eru enn virkir en skuldir heimilanna eiga enn frekar eftir að auka á vandræði Íslendinga," segir Rawkins.

Erlendir fjárfestar eiga, samkvæmt grein Bloomberg fréttaveitunnar, um 700 milljarða íslenskra króna. Þessar krónur eru hins vegar fastar á Íslandi þar sem gjaldeyrishöftum var komið á síðastliðið haust til að halda erlendu fjármagni inn í landinu. Tilgangurinn með höftunum var aðallega sá að koma í veg fyrir enn frekara hrun gjaldmiðilsins.

„Því fyrr sem Íslendingar geta afnumið höftin, því betra fyrir þjóðina og hagkerfið í landinu. Það kemur að því að Íslendingar þurfa aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum," segir Paul Rawkins.

Rawkins telur að raunhæft sé að áætla að losun gjaldeyrishafta hefjist á árinu 2010 og telur auk þess engar líkur á að uppgangur hagkerfisins hefjist fyrr en á næsta ári.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×