Viðskipti innlent

Volvo velur þjónustu Applicon

Sænski bílaframleiðandinn Volvo hefur valið að innleiða fasteignarumsjónarkerfi í SAP með aðstoð Applicon, sem er í eigu Nýherja samstæðunnar. Um er að ræða lausn fyrir Volvo Real Estate, sem hluti af Volvo fyrirtækinu.

 

Í tilkynningu segir að sérfræðingar frá Applicon á Íslandi og í Svíþjóð sáu um innleiðingu á fasteignarumsjónarkerfinu, sem heldur utan um fasteignir, rekstur þeirra og innheimtu reikninga. Volvo samstæðan er með um 100 þúsund starfsmenn í 19 löndum og viðskiptavini í rúmlega 180 löndum.

 

„Applicon hefur í auknum mæli lagt áherslu á verkefni á erlendum vettvangi á undanförnum mánuðum. Nú er tæplega fjórðungur starfsmanna Applicon á Íslandi í verkefnum hjá erlendum fyrirtækjum og hugsanlegt að þeim eigi eftir að fjölga enn frekar," segir Ingimar Bjarnason framkvæmdastjóri Applicon á Íslandi.

 

Applicon er norrænt ráðgjafarfyrirtæki í viðskiptahugbúnaði með starfsemi í fjórum löndum; Íslandi, Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi. Hjá Applicon starfa um 180 starfsmenn. Applicon er hluti af Nýherja samstæðunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×