Innlent

Hækka lægstu launin

Signý Jóhannesdóttir
Signý Jóhannesdóttir

Fulltrúar allra aðildarfélaga BSRB, utan eins, og fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands (SGS) skrifuðu í gær undir kjarasamninga við ríkið. Í samningunum er tekið mið af stöðugleikasáttmálanum, og munu því aðeins lægstu launin hækka.

„Auðvitað er enginn ánægður með þessa niðurstöðu, en miðað við aðstæður er þetta það sem mögulegt var," segir Signý Jóhannesdóttir, sviðsstjóri sviðs opinberra starfsmanna innan SGS.

Þeir sem lægst launin hafa munu hækka um samtals tuttugu þúsund krónur í þremur áföngum. Laun undir 210 þúsund krónum munu hækka frá 1. júlí síðastliðnum og 1. nóvember, og laun undir 310 þúsundum munu hækka 1. júní 2010.

„Í þessum kjarasamningum er bara verið að horfa til allra lægstu launanna, þeir sem hafa hærri laun fá engar hækkanir," segir Árni Stefán Jónsson, starfandi formaður BSRB. Aðeins lítið hlutfall félagsmanna fær því kjarabætur þar til samningurinn rennur út, í lok nóvember 2010.

Samningarnir sem undirritaðir voru í gær eru innlegg í stöðugleikasáttmálann, segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins. Hann segir að samið hafi verið um minni hækkanir en á frjálsum markaði, enda ekkert launungarmál að ríkið sé í erfiðri stöðu og ráði ekki við meiri hækkanir.

BSRB og SGS eiga eftir að semja við sveitarfélögin og Reykjavíkurborg. Signý segir að það geti reynst erfiðara, þar sem fleiri lægra launaðir starfsmenn séu hjá sveitar­félögum, og fjárhagsstaða þeirra sé erfið. Undir það taka aðrir viðmælendur Fréttablaðsins.

Ríkið á einnig eftir að semja við tugi félaga, þar með talað Bandalag háskólamanna, Félag framhaldsskólakennara og fleiri.

Atkvæði verða greidd um samningana á næstunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×