Innlent

Vilmundur verður formaður

Þór Sigfússon
Þór Sigfússon

Þór Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Sjóvár og stjórnarformaður Samtaka atvinnulífsins (SA), hefur ákveðið að taka sér frí frá störfum sem formaður SA um óákveðinn tíma frá og með gærdeginum. Ástæðan er rannsókn sérstaks saksóknara á málum Sjóvár en húsleit var framkvæmd á heimili Þórs í tengslum við málið.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem hann sendi félagsmönnum SA í gær. Mun hann taka sér frí þar til mál hans skýrast innan rannsóknarinnar á Sjóvá.

„Um leið og rannsóknin var kynnt þá ákvað ég að ég vildi gera þetta strax," segir Þór aðspurður um hvort þrýst hafi verið á hann að taka sér frí. Hann segir SA hafa unnið frábært starf og hann hafi ekki viljað trufla það. Því hafi hann ekki látið þetta bíða.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að Þór hafi ekki verið beittur þrýstingi af sér. Þeir hafi rætt málin og Þór hafi verið umhugað um að taka ákvörðum sem væri góð fyrir samtökin. Hann telur ákvörðun Þórs rétta.

En skaðaði þetta SA? „Best hefði auðvitað verið ef þetta hefði aldrei gerst en ef SA og Þór bregðast rétt við í svona stöðu, sem ég tel okkur vera að gera, þá tekst okkur vonandi að afstýra því að þetta skaði SA," segir Vilhjálmur en tekur fram að SA eigi auðvitað enga aðild að þessu máli. Vilhjálmur segir varaformann Samtakanna, Vilmund Jósefsson, taka við formennsku samtakanna eins og eðlilegt sé.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×