Viðskipti innlent

Gengi krónunnar réð stýrivaxtaákvörðuninni

Peningastefnunefnd segir að mikilvægt er að halda gengi krónunnar stöðugu í ljósi þess hve efnahagur heimila, fyrirtækja og banka er viðkvæmur gagnvart gengissveiflum. Fyrir vikið er óhjákvæmilegt að peningalegt aðhald sé meira en annars væri viðeigandi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá nefndinni í tengslum við 1% lækkun stýrivaxta Seðlabankans í morgun.

Í yfirlýsingunni segir einnig að á næstu mánuðum verða stigin mikilvæg skref í endurskipulagningu íslenska fjármálakerfisins. Þegar endurskipulagningunni verður lokið, dregið hefur úr óvissu um erlendar skuldir, skuldir hins opinbera og stöðu ríkisfjármála, og virkni fjármálamarkaða hefur aukist mun peningastefnan í auknum mæli geta stutt við efnahagsbata.

Þá segir nefndin að vaxtalækkunarferli sé framundan og telur nefndin rétt að fara varlega og haga vaxtabreytingum með hliðsjón af tíðu endurmati á stöðunni eftir því sem efnahagslegur stöðugleiki eykst. Í því ljósi hefur nefndin ákveðið að bæta við vaxtaákvörðunarfundi 8. apríl næstkomandi.

Eftir aðlögun í kjölfar gengislækkunar krónunnar á sl. ári virðist sem verðbólga hafi náð hámarki í janúar og að hraðar dragi úr henni en spáð var. Horfur eru á að verðbólga á fyrsta fjórðungi ársins verði umtalsvert minni en 18,6%, eins og spáð var í janúar, og að 2,5% verðbólgumarkmiðinu verði náð snemma á næsta ári.

Vaxandi slaki í þjóðarbúskapnum styður við þessa þróun, eins og niðurstöður nýlegra þjóðhagsreikninga, aukið atvinnuleysi og aðrar skammtíma­vísbendingar bera vitni um. Slaki á vinnumarkaði dregur verulega úr hættu á víxlverkun launa og verðlags.

Þótt verðbólgumarkmiðið sé áfram langtímamarkmið peninga­stefnunnar er gengisstöðugleiki markmið hennar við núverandi aðstæður. Meginástæðan er nauðsyn þess að verja viðkvæma efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja á meðan endurreisn fjármálakerfisins stendur yfir.

Fjármagnshöft styðja við þetta markmið með því að hindra mikið útflæði fjármagns og verja gjaldeyrisforðann. Höftin verða áfram til staðar uns talið verður óhætt að afnema þau.

Nokkur óvissa ríkir enn um erlendar skuldir þjóðarbúsins, fjármál hins opinbera og endurreisn fjármálakerfisins, auk þess sem alþjóðlegar aðstæður eru óhagfelldar. Nauðsynleg skilyrði þess að höftunum verði aflétt eru því ekki enn fyrir hendi.

Ákvarðanir í peningamálum þurfa að taka mið af því að höftunum verður að lokum aflétt. Nægjanleg áhættuleiðrétt ávöxtun innlendra fjáreigna þarf því áfram að vera til staðar.

Hins vegar hafa skammtímavextir lækkað töluvert í umheiminum frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Vaxtamunur við útlönd hefur aukist sem því nemur. Minna peningalegt aðhald ætti því ekki að grafa undan stöðugleika krónunnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×