Viðskipti innlent

Seðlabankinn um þróun og horfur í efnahagsmálum: Álverð hefur náð botni

Í Helguvík Frá framkvæmdum vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík.
Fréttablaðið/GVA
Í Helguvík Frá framkvæmdum vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Fréttablaðið/GVA

Ekki eru taldar miklar líkur á að álverð nái sér aftur á strik á næstu mánuðum nema dregið verði verulega úr framleiðslu og birgðir minnki, að mati hagdeildar Seðlabanka Íslands. Fjallað er um álverðshorfur í rammagrein í nýjasta hefti Peningamála, efnahagsriti bankans.

Álverð seig hratt eftir mitt síðasta ár, var komið undir 1.400 dali á tonnið um áramót. Það jafngilti 50 prósenta verðlækkun frá því í júlí þegar það stóð hæst í 3.300 dölum. Verðið seig frekar og skrapaði botninn tímabundið í febrúar í rúmum 1.250 dölum á tonnið. Það hefur hækkað um tæp 27 prósent síðan þá, var í gær í 1.585 dollurum tonnið.

„Á hinn bóginn eru nú meiri líkur á því að verðið hafi náð lágmarki og taki smám saman að hækka á ný,“ segir í Peningamálum, en meðalverð fyrstu fjórtán vikur ársins var nálægt 1.400 dollurum tonnið. Fram kemur að framvirkt verð LME (London Mineral Exchange) bendi til þess að meðalverð á þessu ári verði nálægt 1.470 dollurum tonnið, ríflega 55 prósentum frá hámarki síðasta sumars. Mikla lækkun rekur Seðlabankinn til umróts vegna fjármálakreppunnar í heiminum.

„Í fyrsta lagi varð minni aðgangur vogunarsjóða og hrávörukaupmanna að fjármagni til þess að þeir drógu sig að nokkru marki í hlé á mörkuðum með málma. Á hinn bóginn hefur vaxandi samdráttur í heimsbúskapnum, sérstaklega í byggingar- og bílaiðnaðinum þar sem notað er mikið af áli, leitt til minnkandi eftirspurnar eftir áli.“

Seðlabankinn gerir ekki ráð fyrir að ál hækki að marki í verði fyrr en á árinu 2010. Hækkun til 2011 verði þá 9,0 til 10,0 prósent. Álverð fari þá í um 1.800 dollara á tonn, sem sé svipað verð og árið 2005. - óká, jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×