Viðskipti innlent

Laus störf ekki verið fleiri síðan vorið 2006

Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar voru 620 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok síðasta mánaðar og var það talsverð fjölgun frá febrúarlokum þegar 423 störf voru auglýst laus hjá vinnumiðlunum. Ekki hafa verið fleiri laus störf í boði síðan á maí 2006 fyrir tæpum 3 árum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að mörgum kunni að þykja það skjóta skökku við að á sama tíma og atvinnuleysi er hér í sögulegu hámarki og mælist tæp 9% og tæplega 18.000 manns eru skráðir án atvinnu hjá vinnumiðlunum skuli störfin sem eru laus vera svo mörg sem raun ber vitni.

Það fyrsta sem ber að nefna í þessu sambandi er að ekki eru allir þeirra sem skráðir eru atvinnulausir í atvinnuleit þar sem þeir eru í tímabundinni vinnu eða hlutastarfi. Í lok mars voru til að mynda fjórðungur þeirra sem skráðir voru atvinnulausir í hlutastarfi eða tímabundnu starfi.

Í kjölfar bankahrunsins í haust var reglum um atvinnuleysisbætur breytt á þann veg að hægt væri að þiggja bætur á móti hlutastarfi sem skýrir hvers vegna þeir sem eru með hlutastarf eða tímabundna vinnu eru inn í atvinnuleysistölum í svo miklum mæli.

Þá gæti einnig verið að störfin sem auglýst eru laus nú séu óvenjumörg vegna þess að störf séu nú auglýst laus opinberalega, sem voru á meðan atvinnuástandið var betra, ekki auglýst með þessum hætti.

Loks virðist vera að flest þeirra starfa sem eru laus séu þess eðlis að þeir sem eru atvinnulausir sækist af einhverjum ástæðum ekki eftir þeim. Þetta gæti verið bæði vegna þess að launin eru lág og einnig vegna þess að þeir sem eru atvinnulausir búi yfir menntun og/eða reynslu sem nýtist ekki sem skyldi í starfinu.

Langflest þeirra starfa sem laus voru í lok mars voru störf í sölu og afgreiðslu eða alls 225 af þeim 620 störfum sem laus voru eða sem nemur 63% allra lausra starfa. Störf í þjónustu, sölu og afgreiðslu voru samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar lægst launuðu störfin á síðasta ári en heildarlaun þeirra sem störfuðu við þessi störf námu 325 þúsund krónur á mánuði á síðasta ári en að meðaltali voru heildarlaun launamannsins á íslenskum vinnumarkaði 393 þúsund krónur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×