Skoðun

Er umræðunni lokið?

Sú staðreynd að ekki skyldi takast að ná fram skyndilegum, og um margt róttækum stjórnarskrárbreytingum í ólgu atburða síðustu missera, er ekki sjúkleikamerki eða vitnisburður um lýðræðishalla íslenskrar stjórnskipunar. Miklu frekar er hér um að ræða eðlilega niðurstöðu stjórnskipulegs lýðræðis og festu. Íslendingar njóta nú góðs af því að skýrar og stöðugar reglur gilda um skiptingu og meðferð ríkisvaldsins. Ofan á efnahagskreppu landsins mun því ekki bætast stjórnlagaóvissa með kostnaði og lausung í ákvarðanatöku. Orka samfélagsins getur farið óspillt í að takast á við aðkallandi málefni.

Með þessu er hins vegar ekki sagt að lýðveldisstjórnarskráin sé hafin yfir gagnrýni og endurskoðun. Fullyrða má að veruleg samstaða ríki um að ákveðnar umbætur þurfi að gera á núgildandi stjórnarskrá. Hér má nefna tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur sem og heimild til framsals ríkisvaldsvalds til alþjóðlegra stofnana á afmörkuðum sviðum. Auk þess hlýtur núverandi kjördæmaskipun að vekja spurningar um endurskoðun. Á enn öðrum sviðum kynni nánari umræða og skoðun að leiða í ljós að æskilegt sé að styrkja sum atriði stjórnarskrárinnar, t.d. varðandi sjálfstæði dómstóla og skipun dómara, úrlausn um stjórnskipulegt gildi laga, vernd umhverfis og ýmislegt sem lýtur að starfsemi og áhrifum Alþingis. Hér ber þó sem fyrr að minnast þess að ýmis mikilvæg atriði, sem kenna má við „stjórnskipun", má ráða til lykta með almennum lögum og enn önnur með breyttri framkvæmd innan ramma gildandi laga (t.d. að því er varðar störf Alþingis).

Miðað við þann mikla almenna og pólítíska áhuga sem var á grundvallaratriðum stjórnskipunarinnar fyrir síðustu kosningar verður að gera ráð fyrir því að ný ríkisstjórn setji almenna endurskoðun á stjórnarskránni nú á dagskrá, e.t.v. þannig að m.a. verði búinn til einhvers konar samráðsvettvangur eða þjóðfundur í þessu skyni. Þótt íslensk stjórnskipun sé langt frá því að vera „handónýt", er yfirvegað og opið ferli til endurskoðunar, sem fram færi samkvæmt grunnreglum og í anda stjórnarskrárinnar sjálfrar, fagnaðarefni. Umræðunni um stjórnarskrána ætti ekki að vera lokið - hún ætti að vera rétt að byrja.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×