Viðskipti innlent

Sameining tveggja banka vandkvæðum bundin

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að þótt rætt hafi verið um sameiningu tveggja af stóru bönkunum þremur innan ríkisstjórnarinnar séu augljósir vankantar á slíkri sameiningu. „Ef af yrði myndi sá banki hafa um 50% markaðshlutdeild sem telst ekki gott út frá samkeppnissjónarmiðum og erfitt yrði að réttlæta slíka ákvörðun," segir Gylfi.

Viðskiptaráðherra leggur áherslu á að engar ákvarðanir hafi verið teknar um þetta og alls ekki ljóst að sameining verði niðurstaðan. Þetta sé þó kostur sem verið hafi til skoðunar.

Hvað varðar þá hugmynd sem upp hefur komið að erlendum kröfuhöfum verði gefinn kostur á að eignast einn af nýju bönkunum upp í kröfur sínar segir Gylfi að slíkt komi vel til greina enda margir kostir við slíkt fyrirkomulag.

„Slík eignaraðild erlendra banka og fjármálastofnana hefur ýmsa augljósa kosti, ekki hvað síst að erlent fjármagn kæmi inn í landið og okkur yrði auðveldara um vik að afla okkur lánsfjár erlendis frá," segir Gylfi.

Hann leggur þó áherslu á að engin ákvörðun liggir fyrir um slíkt eignarhald. Aðspurður um hvort einhverjir af hinum erlendum kröfuhöfum hafi rætt um, eða séu jákvæðir gagnvart, eignarhaldi á einum af bönkunum segir Gylfi það þeir hafi ekki tekið afstöðu til málsins.

„En þetta er ein af mörgum hugmyndum sem við höfum rætt við erlendu kröfuhafana og það verður svo að koma í ljós hvort þetta geti gengið upp," segir Gylfi.

Í umræðunni er helst talið að Landsbankinn og Íslandsbanki gætu sameinast og að Nýja Kaupþing yrði sett upp í kröfur erlendu kröfuhafanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×