Viðskipti innlent

Krónan hefur ekki verið sterkari síðan fyrir bankahrunið

Krónan heldur áfram að sækja í sig veðrið og er gengi hennar nú hærra gagnvart flestum helstu gjaldmiðlum en verið hefur frá bankahruninu í október.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að gærdagurinn var hagfelldur íslensku krónunni og styrktist hún um 1,5% ef miðað er við gengisvísitölu. Gagnvart evru var styrkingin raunar ríflega 2%, enda lækkaði gengi evru talsvert gagnvart öðrum gjaldmiðlum í gær.

Það sem af er degi hefur ládeyða ríkt á gjaldeyrismarkaði og er gengi krónu óbreytt frá opnun þegar þetta er ritað (kl.11:30). Evran kostar nú tæpar 144 krónur og hefur ekki verið ódýrari síðan í septemberlok í fyrra.

Bandaríkjadollar kostar 114 krónur en hann fór lægst í 111 krónur fyrir rúmri viku síðan.

Dollarinn hefur hækkað verulega gagnvart evrunni undanfarna viku, sem skýrir ólíka þróun þessara tveggja helstu mynta heims gagnvart krónu.

Gengisþróun krónu undanfarið mun efalítið kæta sendinefnd AGS sem ræðst á næstu dögum í fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Í endurskoðuninni verður m.a. tekið tillit til einhverrar afléttingar á gjaldeyrishöftum þeim sem í gangi eru.

Miðað við að horfur á lánveitingum nágrannaþjóða til Íslands virðast góðar og að því gefnu að greiðslujafnaðartölur fyrir síðasta fjórðung nýliðins árs, sem birtar verða í næstu viku, verði hagfelldar ættu því að vera allgóðar líkur á að hafist verði handa við afléttingu einhvers hluta gjaldeyrishaftanna á næstunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×