Viðskipti innlent

Frumtak festir kaup á Aðgerðargreiningu ehf.

Frumtak hefur lokið annarri fjárfestingu sinni og fest kaup á hlut í AGR - Aðgerðargreiningu ehf. AGR var stofnað árið 1998 í framhaldi af rannsóknarverkefnum við verkfræðideild Háskóla Íslands. Í nánu samstarfi við Rannís og Háskólann í Reykjavík hefur fyrirtækið undanfarin ár þróað aðferðir og hugbúnað fyrir alþjóðlegan markað.

Í tilkynningu segir að helsta afurð fyrirtækisins er AGR Inventory Optimiser sem innleitt hefur verið hjá yfir 50 fyrirtækjum í 11 löndum. Grunnþróun AGR hefur alfarið farið fram hérlendis í samstarfi við fyrirtæki í vörudreifingu, framleiðslu og verslun. Kerfið framkvæmir söluspár fyrir hverja vöru og velur sjálfvirkt þá fræðilegu spáaðferð sem hentar best fyrir hverja vöru.

Helstu markaðssvæði AGR er í Evrópu með áherslu á Norðurlöndin, Bretland og Holland. Fyrirtækið rekur tvær skrifstofur undir merkjum AGR í Bretlandi og Danmörku en vinnur einnig náið með mörgum þekktum endursöluaðilum á meginlandinu s.s Microsoft og K3.

„AGR er vænlegur fjárfestingakostur fyrir Frumtak" segir dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks. „AGR hefur náð miklum árangri í sölu birgðastýringalausna sinna. Við væntum mikils af fyrirtækinu og erum sérstaklega áhugasamir að sjá fyrirtækið nýta sérþekkingu sína í sölu á bigðastýringalausnum á erlendum mörkuðum. Þarna eru mikil tækifæri sem hægt er að nýta með því fjármagni sem fyrirtækið fær".

„Eftir að hafa unnið undanfarin ár með mörgum af helstu innflutningsfyrirtækjum landsins hefur AGR byggt upp yfirgripsmikla þekkingu á sviði birgðastýringar," segir Haukur Hannesson, framkvæmdastjóri AGR. „Við höfum einnig sannreynt að mikil þörf er fyrir slík kerfi erlendis þar sem fyrirtæki eru að glíma við nákvæmlega sömu vandamál og íslensk fyrirtæki. Það er því meiri eftirspurn eftir kerfinu í núverandi efnahagsástandi þar sem mikil pressa er á stjórnendum fyrirtækja að minnka bundið fé í birgðum. Það er ljóst að samstarf AGR og Frumtaks mun gera AGR kleift að auka áherslu á markaðssetningu og sölu á lausnum sínum."

Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyris­sjóðum landsins og þriggja banka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×