Skoðun

Góðar fréttir

Svanhildur Hólm Valsdóttir skrifar
Það er auðvelt að missa sjónar á hinu góða og jákvæða, þegar flestar fréttir fjalla um bankasukk, spillingu, gjaldþrot og himinháar skuldir Íslendinga við erlenda innstæðueigendur.

Það getur verið gott að minna sig á hið augljósa, að hér ríkir jú enn meiri velferð en víðast hvar, við eigum gott heilbrigðis- og menntakerfi og aðgangur að opinberri þjónustu eins og leikskólum er tiltölulega auðveldur. Þótt atvinnuleysi hafi aukist er það enn minna en í mörgum ríkjum ESB þar sem það fór í maí hæst í 18,7 prósent á Spáni.

Fólk hefur heldur ekki lagt árar í bát og ýmislegt lukkast, þótt stundum geti slíkar jákvæðar fréttir drukknað í umfjöllun um skuldasúpu og svínaflensu. En hvað skyldi hafa verið gott í fréttum undanfarna daga?

Frá því var til dæmis sagt á dögunum að lúxushótel á hálendinu gengi vel. Rétt hjá Hrauneyjafossvirkjun rekur Friðrik Pálsson ásamt fleirum Hótel Háland, í húsum sem áður hýstu starfsmenn en eru nú lúxushíbýli fólks sem sækir í frið og sérstaka náttúru, og er tilbúið að greiða allt að þrjátíu og fimm þúsund krónur fyrir gistinguna. Friðrik, sem rekur einnig Hótel Rangá, segir norðurljósin vera vænlega söluvöru erlendis og lætur engan bilbug á sér finna.

Íslendingar ferðast meira innanlands en áður og skilja eftir sig tekjur í stað þess að fljúga með þær beint úr landi á erlenda sólarströnd. Frétt um blómstrandi ferðaþjónustu á Vestfjörðum rímar við það, en þar stefnir í metár. Þriðjungi fleiri sóttu Vestfirði heim í júní í ár en árið 2008 og júlímánuður hefur þegar slegið öll met.

Saumastofur hafa gengið í endurnýjun lífdaga þar sem fleiri virðast láta gera við föt eða breyta þeim í stað þess að henda og kaupa ný. Að vísu hefur orðið einhver samdráttur í fataverslun en ýmsir sem fæddir eru fyrir miðja síðustu öld myndu líklega halda því fram að þeir yngri hefðu gott af að læra örlitla nýtni.

Margir sjá tækifæri í makríltorfunum sem synt hafa inn í íslenska lögsögu, rétt eins og í olíuleit á Drekasvæðinu. Hvað aðra orkugjafa og fastari í hendi varðar, var notalegt að sjá í fréttum sagt frá því að virkjunin í Sigöldu hefði frá stofnun skilað um áttatíu milljörðum í þjóðarbúið og væri talin geta skilað tveimur til þremur milljörðum á ári í kassann um ókomna tíð.

Samhugurinn er enn til, því í vesturbæ Reykjavíkur hefur vinafélagið Mímir hafið söfnun fyrir nýju fiskabúri í Vesturbæjarlaugina. Margir muna eftir gamla fiskabúrinu og sakna þess að geta staldrað við og skoðað litskrúðuga fiska. Einn forsprakka félagsins segir þetta vera afturhvarf til góðra gamalla gilda þar sem íbúar létu nærumhverfi sitt sig varða.

Það má líka fagna því að Ísland hlaut nýlega hæstu einkunn hjá evrópskum stýrihópi fyrir barnaslysavarnir og gott að vita til þess að þrotlaus vinna að þeim hefur skilað árangri.

Það er nefnilega á ábyrgð okkar allra að koma börnum þessa lands til manns, í landi sem hefur margt að bjóða. Það er skuld sem er vert að greiða.






Skoðun

Sjá meira


×