Viðskipti innlent

Sena seld til Garðarshólma

Jón Diðrik.
Jón Diðrik.

Stjórn Íslenskrar afþreyingar hf. hefur, að undangengu formlegu söluferli, gengið að tilboði Garðarshólma Rekstrarfélags í öll hlutabréfin í Senu.

Tilboðið, sem er með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar, metur heildarvirði Senu á 500 milljónir kr. Garðarshólmi yfirtekur engar skuldir frá Íslenskri afþreyingu við söluna.

Í tilkynningu um málið segir að Straumur fjárfestingabanki hf. hafi annast formlegt söluferli á Senu. Söluferlið hófst í janúar s.l. og óskuðu þá 20 aðilar eftir formlegri þátttöku. Átta aðilar skiluðu inn óskuldbindandi tilboðum í félagið fyrir 5. febrúar s.l. Í framhaldinu var gengið til viðræðna við þá er höfðu lagt fram hagstæðustu tilboðin en frestur þeirra til að skila inn bindandi tilboði rann út í gær.

Capacent Fyrirtækjaráðgjöf var ráðgjafi Garðarshólma í ferlinu.

Sena er stærsta afþreyingarfyrirtæki landsins og felur starfsemin í sér innflutning og sölu á tónlist, kvikmyndum og tölvuleikjum ásamt því að skipuleggja atburði af ýmsum toga, með íslenskum og erlendum listamönnum. Sena rekur verslanir Skífunnar og kvikmyndahúsin Smárabíó, Háskólabíó, Regnbogann og Borgarbíó Akureyri.

Garðarshólmi er í eigu Jóns Diðriks Jónssonar og Magnúsar Bjarnasonar. Gert er ráð fyrir aðkomu Björns Sigurðssonar framkvæmdastjóra Senu og lykilstjórnenda í kaupunum.

Jón Diðrik Jónsson mun verða stjórnarformaður félagsins en hann hefur langa reynslu af neytendamarkaðsmálum í gegnum stjórnunarstörf hjá Coca-Cola í Asíu og Evrópu og sem forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hf.

Jón Diðrik var áður forstjóri Glitnis og ráðgjafi Reykjavík Energy Invest.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×