Viðskipti innlent

Skuldir íslenska ríkisins eftir bankahrunið eru viðráðanlegar

Skuldir íslenska ríkisins munu aukast mikið nú í bankakreppunni. Reikna má með því að heildarskuldir munu aukast um 420 milljarða kr. í ár af þessum sökum og verða 1.083 milljarða kr. í lok árs.

Greining Íslandsbanka telur að skuldir ríkisins eftir bankahrunið séu viðráðanlegar en fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar.

Kostnaði vegna bankahrunsins er mætt með innlendri lántöku en eignir koma að hluta á móti í nýju bönkunum. Þessu til viðbótar koma síðan ábyrgðir vegna Icesave að upphæð 600 milljarða kr. og lán og lánalínur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum o.fl. upp á 630 milljarða kr.

Áætlað er að vaxtakostnaður í ár af skuldum ríkissjóðs muni nema um 87 milljarða kr. eða ríflega 21% af áætluðum tekjum ríkissjóðs í ár. Kemur þetta fram í upplýsingum sem fjármálaráðuneytið hefur tekið saman og fjármálaráðherra kynnti í gær.

Skuldatryggingaálag íslenska ríkisins er hátt um þessar mundir en það hefur verið um 10 prósent um nokkuð skeið sem er langt yfir því álagi sem ríki í öðrum iðnvæddum löndum búa við. Álagið ber það með sér að markaðsaðilar telja verulegar líkur á því að íslenska ríkið lendi í greiðslufalli sökum áhrifa bankahrunsins á fjárhagslega stöðu þess.

Að sama skapi hafa öll lánshæfismatsfyrirtækin lækkað lánshæfiseinkunn ríkisins töluvert undanfarið og eru einkunnir ríkissjóðs nú hinar lægstu frá því fyrirtækin hófu að meta lánshæfi ríkissjóðs.

Vart þarf að taka fram að greiðslufall yrði hagkerfinu þungt í skauti. Rannsóknir á áhrifum þess að ríki lenda í greiðslufalli hafa leitt það í ljós aðgangur að lánsfé og þá ekki síst erlendu lánsfé verður erfiðari og fjármagnskostnaður í framtíðinni hærri.

Reyndar hafa ríki sem lent hafa í greiðslufalli náð því að komast inn á lánamarkaði nokkuð fljótt en hafa undantekningalaust þurft að greiða talsvert hærra vaxtaálag sökum greiðslufallsins. Á síðustu áratugum hafa flest ríki sem lent hafa í greiðslufalli lent í því samhliða því að hagkerfi þeirra hafa verið að takast á við gengis- og/eða bankakreppur.

Mark Flanagan, sem fer fyrir sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, segir engar líkur á greiðslufalli íslenska ríkisins á erlendum eða innlendum skuldum þess. Hann segir sjóðinn hafa farið gaumgæfilega yfir forsendur fyrir lánveitingu til landsins og gert margvísleg álagspróf áður en lánsbeiðnin var samþykkt.

Bendir Flanagan á að þrátt fyrir að skuldir hins opinbera verði miklar sé eignahliðin talsvert myndarleg á móti, og því sé hrein staða hins opinbera mun hagfelldari en ætla mætti við fyrstu sýn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×