Viðskipti innlent

Yfirtökuskyldan lækkuð úr 40% og niður í 33%

Alþingi hefur samþykkt lög um verðbréfaviðskipti. Ein stærsta breytingin sem gerð er á fyrri löggjöf er að yfirtökuskylda í hlutafélögum er lækkuð úr 40% og niður í 33%.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að fyrrgreind breyting byggist á tillögu minni hluta nefndar sem viðskiptaráðherra skipaði á sínum tíma til að vinna að frumvarpinu en meiri hlutinn taldi ekki ástæðu til að gera breytingar á mörkum tilboðsskyldu.

Af þeim upplýsingum sem nefndin aflaði í starfi sínu má glöggt sjá að það er rík tilhneiging hjá nágrannalöndum Íslands að lækka mörk tilboðsskyldu. Má segja að Ísland sé enn eitt örfárra landa þar sem yfirtökumörk eru hærri en 33%.

Nefndin lét gera hagfræðilega úttekt sem m.a. fólst í því að kanna hver þróun á eignarhaldi hlutafjár hefði verið hér á landi og hvort sjá mætti áhrif þess að í mörgum félögum eru margir hlutir í eigu sama aðila eða tengdra aðila.

Í úttektinni kemur m.a. fram að í ellefu af tuttugu stærstu félögum sem hafa hlutabréf tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi fer einstakur hluthafi (einstaklingar eða félög) með 25% atkvæðisréttar eða meira og þar af sjö með yfir 1/3 atkvæða.

Þetta sýnir að samþjöppun á eignarhaldi er algengari en dreift eignarhald á hlutabréfamarkaði hér á landi. Þá er talsvert mikil samþjöppun á milli þessara 20 hlutafélaga þar sem einstakir hluthafar eigi stóra hluti eða yfir 20% í fleiri en einu félagi og í sumum tilvikum í mörgum félögum. Því þyki ekki ólíklegt að tengsl og samstarf sé milli þessara fjárfesta og að farið sé yfir tilboðsmörk án þess að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð.

Þá þykir ljóst að stórir hluthafar á Íslandi geti auðveldlega farið með yfirráð án þess að hafa öðlast 40% atkvæðaréttar. Að þessu leyti þykir skorta á minnihlutavernd og ætti að huga að lækkun hlutfalls við myndun yfirtöku.

Hins vegar þykir ljóst að lægra prósentuhlutfall geti gert meiri skaða en gagn ef reglur um yfirtökur eru ekki skýrar og ef eftirlit með hlutabréfamarkaðnum er óskilvirkt þannig að hægt sé að skjóta sér undan tilboðsskyldu með því að skrá hluti á mismunandi lögaðila eða að ákveðnir stjórnendur geti haft með sér samráð um að stjórna félagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×